Matarsóun á Íslandi

Rannsóknir og athuganir á matarsóun á Íslandi eru enn sem komið er af skornum skammti en þó hefur orðið mikil vakning á síðustu misserum.

Helst ber þar að nefna samstarf Landverndar, Kvenfélagasambands Íslands og Vakandi í verkefninu Zero Waste. Hefur hópurinn unnið nokkur verkefni sem snúið hafa að því að vekja athygli á málstaðnum og hvetja fólk til að minnka sóunina. Árið 2015 vann Landvernd forrannsókn á matarsóun á reykvískum heimilum sem bendir til að a.m.k. 5.800 tonnum af mat og drykk sé hent af reykvískum heimilum árlega. Þetta samsvarar a.m.k. 4,5 milljörðum króna. Ráðherra umhverfis- og auðlindamála skipaði haustið 2014 starfshóp sem skilaði tillögum til að minnka matarsóun. Umhverfisstofnun var síðan falið að vinna að fjórum verkefnanna og fékk til þess 1,8 milljónir króna. Hér fyrir neðan má sjá nánari umfjöllun um verkefni síðustu ára tengd matarsóun á Íslandi.

Samstarfsaðilar

Zero Waste - Saman gegn matarsóun

Matarsóunarverkefnið Zero Waste hófst á vormánuðum 2014 þegar styrkur fékkst frá Norrænu ráðherranefndinni.

Hópurinn sem hlaut styrkinn samanstendur af Landvernd, Kvenfélagasambandi Íslands og Vakandi hreyfingunni ásamt tveimur norrænum samstarfsfélögum: Stop spild af mad hreyfingunni sem Selina Juul í Danmörku veitir forstöðu og Matvett í Noregi.

Zero Waste verkefnið skiptist í 5 verkþætti:

 •  Viðburðir um matarsóun. Haustið 2014 voru haldnir tveir stórir viðburðir á vegum verkefnisins. Hátíðin „Saman gegn matarsóun“ var haldin í Hörpu í september sem hluti af „United Against Foodwaste Norden“ átakinu en viðburðir undir þessu nafni voru haldnir í öllum Norðurlöndunum árið 2014. Meðal þeirra sem komu fram á hátíðinni voru Selina Juul og Tristram Stuart, sem barist hafa gegn matarsóun í heimalöndum sínum, Danmörku og Bretlandi. Þessi viðburður sameinaði, í fyrsta sinn á Íslandi, aðila frá öllum stigum framleiðslu og neyslu þar sem áhersla var lögð á vitundarvakningu og að sameinast gegn matarsóun. Til að halda umræðunni áfram stóð verkefnið, í samstarfi við Norræna húsið, fyrir málstofu þann 25. nóvember 2014. Erlendir og íslenskir fyrirlesarar ræddu lausnir á matarsóun og sögðu frá árangri sínum á því sviði. Þessir viðburðir heppnuðust afar vel og sköpuðu miklar og góðar umræður.
 • Heimildamyndin „Useless“ um matar- og tískusóun er klukkutíma löng heimildamynd þar sem Sigríður Halldórsdóttir, þáttastjórnandi, leiðir áhorfendur í gegnum gerðalag til að finna út af hverju við mannfólkið sóum svona miklu og er fókusinn settur og matar- og tískusóun. Myndin verður frumsýnd vorið 2017.
 • Rafbók um matarsóun og hvernig elda má 'gourmet' máltíðir úr afgöngum. Matreiðslubókina er að finna hér á heimasíðunni undir 'Uppskriftir og myndbönd'.
 • Eldað úr öllu námskeið um eldamennsku úr afgöngum skipulögð af Kvenfélögunum og Dóru Svavarsdóttur matreiðslumeistara. Dóra Svavarsdóttir, matreiðslumeistari, hélt 15 námskeið og ýmsa aðra viðburði sem tengdust matarsóun á Íslandi árin 2014-15. Um 300 manns tóku beinan þátt í þessum viðburðum og tveir stórir viðburðir í maí og ágúst 2015 náðu til mörg þúsund manns (sjá lista fyrir námskeið og viðburði að neðan). Dóra fékk mest af hráefninu fyrir námskeiðin hjá Frú laugu, en þetta var ýmiss matur sem var við það að renna út. Námskeiðin skiptust í tvo hluta. Fyrst hélt Dóra almenna kynningu á mat og matarsóun og af hverju það er nauðsynlegt að koma í veg fyrir hana. Hún talaði um hvar matarsóun á sér stað og leiðir til að koma í veg fyrir sóun. Þátttakendur voru hvattir til að spyrja spurninga og oft mynduðust líflegar umræður. Í seinni hluta námskeiðsins var farið yfir í eldhúsið og alls konar réttir útbúnir undir handleiðslu Dóru. Oft þurfti að skipta út matvælum því réttu innihaldsefni uppskriftanna voru kannski ekki til. Með þessu móti lærðu þátttakendur að búa til nýjar uppskriftir og fá tilfinningu fyrir því hvaða matvæli henta í staðinn fyrir það sem vantar. 
 • Myndbönd um matarsóun sem dreift er á netinu. Tólf stutt myndbönd með Dóru Svavarsdóttur matreiðslumeistara voru gerð þar sem hún sýnir handbrögð í eldhúsinu sem hjálpa til við að koma í veg fyrir matarsóun. Hugmyndafræðin er svipuð og á námskeiðunum Eldað úr öllu. Þessi myndvönd voru einnig útbúin með dönskum og norskum texta og hefur verið komið í dreifingu í öllum samstarfslöndunum. Myndband var einnig gert á eyjunni Samsö í Danmörku þar sem viðtal er tekið við veitingahúsaeiganda sem gerir allt sem hún getur til að koma í veg fyrir matarsóun. Tvö jólamyndbönd voru gerð með frú Kitschfríði þar sem viðfangsefnin voru matarsóun á jólahlaðborðum og hvernig má endurnýta afgangana af jólamatnum. Frú Kitschfríður er skálduð persóna leikin af Sigríði Ástu Árnadóttur sem fer ótroðnar slóðir. 

Matarsóun – tillögur til úrbóta

Starfshópur um matarsóun var settur á fót haustið 2014 af umhverfis- og auðlindaráðherra til að móta tillögur um hvernig draga megi úr sóun matvæla.

Hópurinn var skipaður fulltrúum frá Bændasamtökum Íslands, Kvenfélagasambandi Íslands, Landvernd, Matvælastofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar- og þjónustu, Umhverfisstofnun, og Vakandi. Hópurinn hittist í 11 skipti og á Degi umhverfisins í apríl 2015 skilaði hann af sér skýrslu með tillögum um hvernig draga megi úr sóun matvæla.

Skýrsluna er að finna hér.

 1. Spurningarkönnun um matarsóun – Í könnuninni var athugað viðhorf fólks til matarsóunar og var hún framkvæmd í lok september 2015 meðal fólks á aldrinum 18- 75 ára.
 2. Ein gátt um matarsóun – Heimasíðan matarsoun.is var upphaflega í eigu Landverndar í tenglum við matarsóunarverkefni samtakanna en ákveðið var á fundi starfshópsins um matarsóun að þessi heimasíða myndi nýtast betur í sameiginlegu átaki gegn matarsóun þar sem allir þessi aðilar koma að borðinu. Heimasíðan var endurhönnuð og er nú rekin af Umhverfisstofnun en allir aðilar sem áttu fulltrúa í starfshópnum um matarsóun geta sett þar inn efni.
 3. Átaksverkefni – hugarfarsbreyting um matarsóun – Verkefnið snérist um að finna samstarfsaðila til að kynna betur hugtakið matarsóun. Þegar það gekk ekki eftir var ákveðið að nota vefsíðuna sem okkar helstu miðlun upplýsinga og hvatningu til þess að fólk dragi úr matarsóun. Vegur síðunnar er þess vegna aukinn í þessu verkefni.
 4. Meðvitund um matarsóun á veitingastöðum – leitað var samstarfs við Samtök ferðaþjónustunnar sem eru í dag að vinna að aðgerðaáætlun varðandi matarsóun á veitingastöðum.

Forrannsókn á matarsóun á reykvískum heimilum

Tilgangur þessarar forrannsóknar var að fá vísbendingar um umfang matarsóunar á reykvískum heimilum og prufukeyra hérlendis þær aðferðir sem nú þegar eru notaðar til að mæla matarsóun annars staðar í heiminum. Með matarsóun er átt við þann mat sem hægt hefði verið að neyta. Því telst t.d. kaffikorgur, bein, bananahýði o.þ.h. ekki til matarsóunar. Sautján heimili tóku þátt í forrannsókninni. Þau svöruðu tveimur spurningalistum varðandi hegðun og viðhorf gagnvart matarsóun og skráðu niður allan mat og drykk sem var hent yfir viku tímabil í matardagbók. Mælingar tóku eingöngu til matarsóunar inná heimilum, ekki þess matar sem heimilisfólk sóar utan þess. Forrannsókn Landverndar á matarsóun heimila í Reykjavík bendir til að a.m.k. 5.800 tonnum af mat og drykk sé hent af reykvískum heimilum árlega. Þetta samsvarar a.m.k. 4,5 milljörðum króna. Samkvæmt mælingum inn á sautján heimilum hendir hver einstaklingur um 48 kg á ári sem gerir um 150 þúsund krónur fyrir fjögurra manna fjölskyldu. Sú upphæð dugar fyrir einu kílói af lambakótelettum og léttu meðlæti í hverri viku. Ef dregið yrði úr matarsóun um 20% væri 1.150 tonnum minna hent af mat sem þýddi um 900 milljóna sparnað fyrir íbúa Reykjavíkur í heild sinni. Tæplega 18,5 milljóna króna sparnaður yrði vegna gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs.

Ástæða matarsóunar reykvísku heimilanna var aðallega tvenns konar, annars vegar að „eldað, matreitt eða skammtað hafi verið of mikið” (46%) og hinsvegar að „matur var ekki notaður á réttum tíma“ (44%). Peningasparnaður var sterkasti hvatinn til að minnka matarsóun hjá þátttakendum en samviskubit, skilvirkni, umhverfisáhrif og fæðuskortur annars staðar í heiminum voru einnig sterkir hvatar. Eftir að matardagbókinni var lokið sögðu nær allir þátttakendur að þeir myndu héðan í frá leggja sig fram við að minnka magn þess matar sem er hent af heimilum þeirra.

Rannsakendur telja mat þessarar forrannsóknar varfærið og að matarsóun kunni að vera enn meiri, en frekari rannsóknir vanti. Viðameiri rannsókn er nauðsynleg til að fá gleggri og öruggari mynd af matarsóun Íslendinga. Ljóst er að niðurstöður forrannsóknarinnar nýtast fyrir slíka vinnu og gefa jafnframt mikilvægar vísbendingar um hvernig megi best nálgast aðgerðir gegn matarsóun. Landvernd vann þessa forrannsókn í samstarfi við Reykjavíkurborg og fyrir tilstilli verðlaunafés sem Reykjavíkurborg tók við þegar hún fékk Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.

Skýrsluna er að finna hér

Saman gegn sóun – almenn stefna um úrgangsforvarnir

Umhverfis- og auðlindaráðherra ber að gefa út stefnu í úrgangsmálum tólfta hvert ár. Hér má lesa almenna stefnu um úrgangsforvarnir 2016 – 2027 sem ber heitið „Saman gegn sóun“. Einn af áhersluflokkum þessarar stefnu er matarsóun og hvernig má sporna við henni.

Rannsókn á matarsóun á Íslandi

Umhverfisstofnun hefur lokið rannsókn um umfang matarsóunar á Íslandi. Safnað var upplýsingum um hversu miklum mat og drykk er hent inni á heimilum, í matarframleiðslu, í heildsölu og smásölu, á veitingastöðum og í mötuneytum hér á landi og hversu stórum hluta af matvælunum væri hægt að nýta. Rannsóknin er unnin með styrk frá Evrópsku hagstofunni (EUROSTAT) og er fyrsti vísir af hagtölum um matarsóun á Íslandi. 

 1. Rannsóknin skiptist í tvennt, annars vegar í heimilishluta og hins vegar í fyrirtækjahluta.
 2. 1.036 heimili lentu í úrtaki. Svör bárust frá 123 heimilum.
 3. 701 fyrirtæki lenti í úrtaki, úr 17 atvinnugreinaflokkum. Svör bárust frá 84 fyrirtækjum, úr 12 atvinnugreinaflokkum.
 4. Þátttakendur mældu og skráðu þann mat sem þeir hentu.

Helstu niðurstöður:

 1. Matarsóun á heimilum á Íslandi er sambærileg því sem gerist í öðrum löndum Evrópu.
 2. Ekki er marktækur munur á sóun á heimilum eftir því hvort þau eru staðsett á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni.
 3. Rannsóknin dregur upp svipaða mynd af matarsóun frá atvinnurekstri og komið hefur fram í öðrum Evrópulöndum, þar sem mesta sóunin er hjá veitingarekstri og matvælaframleiðslu.

Nánari upplýsingar um rannsóknina má finna hér.

Sóknaráætlun í loftslagsmálum

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur veitt Umhverfisstofnun fjármagn til að vinna að átaki gegn matarsóun í samstarfi við fleiri aðila. Talið er að losun gróðurhúsalofttegunda vegna matarsóunar jafngildi 5% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda Íslands svo mikilvægt er að sporna við slíkri sóun.