Þriðjungur þess matar sem framleiddur er fer beint í ruslið samkvæmt Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) eða um 1.3 milljarðar tonna af mat á hverju ári í heiminum.

Á heimsvísu er talið að um þriðjungi af framleiddum mat til manneldis eyðileggist eða sé sóað, það er um 1.3 milljarður tonna. Á Norðurlöndunum er sóað um 3.5 milljónum tonna af mat árlega! Matvæli sem er sóað hefðu mögulega getað brauðfætt milljónir manna og minnkað þá hungursneyð sem steðjar að ýmis staðar í heiminum. Þar að auki hefur framleiðsla matar oft talsverð neikvæð umhverfisáhrif sem þjóna þá engum tilgangi ef maturinn er ekki nýttur og eykur verulega við magn úrgangs sem þarf að urða. Hér er einnig um sóun á fjármunum að ræða þar sem heimili og stóreldhús kaupa í rauninni oft of mikið af mat. Því fæst töluverður samfélagslegur, umhverfislegur og fjárhagslegur ávinningur af því að minnka matarsóun. 

Þótt málið sé flókið og margir aðilar komi að því geta nokkrar einfaldar breytingar á venjum okkar og rekstri fyrirtækja haft veruleg áhrif. Á þessari síðu er að finna upplýsingar og ýmis ráð fyrir almenning og atvinnurekendur til að minnka matarsóun.

Matarsóun og loftlagsbreytingar

Síðustu misseri hefur matarsóun verið töluvert í umræðunni og er almennur samhljómur um að draga þurfi úr henni.

Með því að draga úr matarsóun má nýta betur auðlindir og spara fé. En það sem sjaldnar hefur komið fram er að sóun matar leggur að öllum líkindum mikið til losunar gróðurhúsalofttegunda. Samkvæmt skýrslu Matvæla– og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna er áætlað að um 3.300.000 Gg af losun koldíoxíðígilda í heiminum á ári megi rekja til matarsóunar. Af þessu magni er hlutur Evrópu u.þ.b. 15% og er losun metin þar hæst á hvern íbúa, ásamt í Norður–Ameríku, Eyjaálfu og í iðnvæddum hluta Asíu. Þetta mat tekur til losunar vegna sóunar við frumframleiðslu, við vinnslu og dreifingu matvæla og vegna sóunar hjá neytendum. Ef gert er ráð fyrir að losun á hvern íbúa á Íslandi sé sambærileg meðallosun á hvern íbúa Evrópu þá er losun frá matarsóun Íslendinga á ári hverju rúmlega 200 Gg koldíoxíðígilda. Það gerir um 5% af árlegri heildarlosun Íslands árið 2013 og rúm 8% ef frá er skilin losun frá starfsemi sem fellur undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir (ETS). Losun vegna matarsóunar er því heldur meiri en má rekja árlega til t.d. notkunar kælimiðla hérlendis (171 Gg) og er hún rétt tæplega helmingur af þeirri losun sem má rekja til fiskveiða (473 Gg).

Ísland er aðili að sameiginlegu markmiði með ríkjum Evrópusambandsins um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2020.

Samkvæmt markmiðinu hefur íslenska ríkið skuldbundið sig til að losa ekki meira að meðaltali en u.þ.b. 1.920 Gg árlega á tímabilinu 2013–2020, að undanskilinni þeirri losun sem stafar frá starfsemi sem fellur undir ETS. Losun Íslands frá uppsprettum utan ETS var um 2780 Gg árið 2012 og samkvæmt því þarf að draga úr árlegri losun um 860 Gg að meðaltali á tímabilinu 2013–2020. Ef gert er ráð fyrir að kolefnisbinding með skógrækt og landgræðslu muni duga til að mæta þessu markmiði að um það bil helmingi þá þarf samdráttur í árlegri losun frá atvinnulífinu og heimilum að nema samtals um 430 Gg. Að öðrum kosti þarf íslenska ríkið hugsanlega að kaupa losunarheimildir frá öðrum ríkjum.

Á síðustu fjórum árum hafa eldhús og matsalir Landspítala unnið markvisst að því að draga úr matarsóun. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa því nú er 40% minna af mat hent en áður var gert. Eins og kom fram hér að framan, þá má leiða að því líkum að losun gróðurhúsalofttegunda frá matarsóun á Íslandi geti verið rúmlega 200 Gg á ári. Ef hægt verður, með markvissum aðgerðum, að draga úr matarsóun um 40% á landsvísu verður samkvæmt þessu hægt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 90 Gg á ári. Það er fimmtungur af þeim samdrætti í árlegri losun sem þarf að ná til ársins 2020. Þessi samdráttur er líklegur til að koma fram í mörgum þeim atvinnugreinum sem oft er sérstaklega litið til varðandi losun gróðurhúsalofttegunda, s.s. í samgöngum, meðferð úrgangs, landbúnaði og orkuframleiðslu. Það ber að hafa í huga að hluti af þeirri losun sem gæti sparast vegna minnkandi matarsóunar hér á landi verður við frumframleiðslu, vinnslu og dreifingu matvæla innan annarra landa. Því er ólíklegt að allur þessi samdráttur myndi rata beint í losunarbókhald Íslands. Hins vegar má búast við að talsverður hluti hans muni gera það og teljast Íslandi til tekna, auk þess sem samdráttur í losun mun auðvitað hafa sömu jákvæðu áhrifin gagnvart loftslagsbreytingum hvort sem hann verður á Íslandi eða annars staðar í heiminum.

Matarsóun á sér stað í öllum stigum virðiskeðju framleiddra matvæla; við framleiðslu, vinnslu, flutning, sölu, og neyslu. Matarsóun hefur í för með sér ýmis neikvæð umhverfisáhrif, mikla sóun á fjármunum og samfélagsleg áhrif þar sem þeim mat sem er sóað væri mögulega hægt að nýta annars staðar í heiminum. Hér má sjá einfaldaða mynd sem sýnir virðiskeðju framleiddra matvæla, hver helstu umhverfisáhrifin eru og helstu aðföng sem þarf fyrir hvert stig.

Matarsóun Útskýringarmynd

Uppspretta matvæla liggur í náttúruauðlindum okkar. Framleiðsluferlið er þó yfirleitt töluvert flóknara og getur haft áhrif á umhverfi, samfélag og efnahag. Ýmislegt þarf við framleiðslu matvæla, m.a. fjármagn, vatn, plöntuvarnarefni og jarðefnaeldsneyti. Framleiðsla matvæla getur leitt til losunar gróðurhúsalofttegunda, jarðvegs- og vatnsmengunar, jarðvegsrýrnunar, minnkunar líffræðilegs fjölbreytileika og aukinnar úrgangsmyndunar. Matarsóunin sem hér verður er í formi matvæla sem skemmast, afurðir sem samrýmast ekki útlitskröfum, vegna veðurs, offramleiðslu og takmarkana á tækni.

Matvæli eru oft unnin talsvert áður en þau rata í búðir eða á disk neytenda. Hrísgrjón, salt og sykur eru hreinsuð, dýrum er slátrað, korn malað og afurðirnar unnar í hinar ýmsu vörur. Þessi vinnsla getur kostað mikla peninga og orku, m.a. í formi raforku eða jarðefnaeldsneytis. Einnig fer töluvert hráefni í bæði vöruna sjálfa og umbúðir á vörunni. Líkt og í framleiðsluferlinu, þá getur vinnsluferlið haft í för með sér ýmis konar umhverfisáhrif, þá helst losun gróðurhúsalofttegunda, jarðvegs- og vatnsmengun og úrgangsmyndun. Matarsóun á sér svipaðar orsakir hér eins og í framleiðslu þ.e. að útlitsgölluðum afurðum er hent eða afurðirnar standast ekki kröfur, matvælatækni getur verið takmörkuð svo afurðir nýtast ekki nógu vel og að þær geta skemmst vegna rangra geymsluaðferða.

Þegar varan er fullunnin og búið að pakka henni inn í viðeigandi umbúðir þarf að koma vörunni til neytenda. Matvæli eru flutt með bílum, flugvélum og skipum um allan heim. Því felur þetta skref virðiskeðjunnar í sér mikla brennslu á jarðefnaeldsneyti sem leiðir til mengunar og losunar gróðurhúsalofttegunda. Þetta á sérstaklega við á Íslandi þar sem stór hluti þeirra matvæla sem við neytum er fluttur inn með tilheyrandi kolefnisspori. Flutningur matvæla eykur einnig slit á innviðum, t.d. vegum, með tilheyrandi kostnaði. Á þessu stigi verður matarsóun vegna þess að afurðir eru ekki geymdar eða pakkað inn með réttum hætti, einnig geta matvæli skemmst við hvers kyns hnjask í flutningum.

Á endanum rata innpakkaðar vörurnar í verslanirnar. Mikil vinna, orka og fjármagn fer í framsetningu á vörunum til að hvetja neytendur til að kaupa þær. Þrátt fyrir það selst ekki nærri því allt og mikil matarsóun og úrgangsmyndun á sér því stað. Matarsóun í verslunum á sér stað vegna þess að afurðir eru geymdar eða pakkað inn með röngum hætti, of mikið af vörunni er keypt inn og vörum er vitlaust raðað í hillur.

Þá er neytandinn loks kominn með afurðirnar á diskinn, hvort sem það er heima eða á veitingastað. Peningur, orka og tími fór í að verða sér út um það sem er á disknum. Í vestrænum heimi er matarsóun hvað mest á þessu stigi. Neytendur kaupa of mikið, matreiða of mikið, misskilja geymsluþol matvæla, matvæli eru geymd á rangan hátt og fleira sem leiðir til mikillar sóunar og úrgangsmyndunar.

Matvælum sem er sóað á öllum stigum keðjunnar. Meirihluti þessa úrgangs á Íslandi er urðaður sem krefst sífellt meira landsvæðis og leiðir til myndunar og losunar gróðurhúsalofttegunda, jarðvegs-, vatns- og lyktarmengunar. Þegar lífrænn úrgangur brotnar niður við loftfirrðar aðstæður, líkt og myndast við urðun, þá myndast metan gas. Metan er 21 sinnum virkari gróðurhúsalofttegund en koltvíoxíð og því töluvert verri. Um þriðjungur matvæla endar á þessu stigi. Miklum fjármunum og auðlindum jarðar er því sóað um allan heim.

Áhugaverðir og hagnýtir hlekkir:

Herferðir gegn matarsóun

Hagnýtar upplýsingar

Reglugerðir og skýrslur um matvæli og matarsóun