Gerum okkur mat úr mörgu - Matarauður Íslands

08.11.2017 15:12

Af hverju fóru Íslendingar að nota mjólkursúr til að geyma matinn sinn? Hver eru matarsérkenni vesturlands? Var kræklingasúpa margreynt ráð við svefnleysi fyrr á öldum? Hver er sérstaða íslensks hráefnis? Hvar og hvenær eru matarviðburðir? Hvernig hefur sjálfbærni í matvælaframleiðslu áhrif á heilsu okkar? Hvað gera matarfrumkvöðlar?

 

Þetta og svo margt fleira sem tengist mat og matarmenningu okkar Íslendinga er að finna á nýrri vefsíðu Matarauðs Íslands. Tilgangur vefsíðunnar er að vekja athygli á fjölbreytileika og gæðum íslensks matar og þær ríkulegu hefðir sem við búum við. Verum þakklát fyrir gjöful mið og fjölbreytilegar landbúnaðarafurðir. Verum þakklát þeim Íslendingum sem brauðfæða okkur og leggja sig fram um að bjóða okkur upp á hreinar afurðir úr faðmi íslenskrar náttúru.Matur er stór hluti af ímynd þjóða og speglar náttúruna, söguna og tíðarandann. Matarferðaþjónusta er hratt vaxandi angi innan ferðaþjónustunnar. Hjá flestum okkur blundar þrá eftir því að tengja það sem við látum ofan í okkur við einhvern uppruna og merkingu. Að sitja á veitingahúsi í Öræfasveit með útsýni yfir stórfenglegan Vatnajökul og drekka bjór sem bruggaður er úr vatni jökulsins eða að snæða ylvolgt hverabakað rúgbrauð með taðreyktum silungi í Mývatnssveit er dæmi um það hvernig hægt er að tengja mat við landið og söguna.

Matarauður Íslands er verkefni sem heyrir undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Fylgstu með á Facebook, Instagram og Twitter: @mataraudur

Glænýtt myndband um matarauð okkar Íslendinga:

Í bestu gæðum (.mov)

Í ágætum gæðum (.mp4)

Frekari upplýsingar veitir Brynja Laxdal, verkefnastjóri Matarauðs Íslands í síma 8601969 eða á brynja.laxdal@anr.is 

 

Úr haga í maga

02.10.2017 16:44

Mjólkin kemur svo sannarlega víða við á leið sinni úr haga í maga! Mjólkin er dýrmæt afurð sem hefur farið í gegnum langt framleiðsluferli áður en hún endar hjá okkur neytendum.

Því er mjög mikilvægt að hugsa sig vel um áður en maður sóar fullkomlega góðum mjólkurafurðum. Til þess að meta gæðin er lang best að einfaldlega treysta á sín eigin skynfæri, Nota nefið, lykta og smakka. Það er nefnilega ekkert hættulegt, því "Best fyrir" dagssetningin á mjólkurvörum er ekki það sama og "síðasti neysludagur". Best fyrir er einungis sú dagssetning sem framleiðandinn treystir sér til þess að lofa fullum gæðum og eiginleikum vörunnar. Varan þarf samt alls ekki að vera vond eða ónýt þó hún sé komin fram yfir Best fyrir. Treystum nefinu okkar í þessu!

 

"Um framleiðsluna sjá rúmlega 26 þúsund mjólkurkýr sem búa á 600 kúabúum víðsvegar um landið. Þær skila af sér um 3 milljónum lítra af mjólk í hverri viku sem mjólkurbíllinn sækir og keyrir til afurðastöðva þar sem hún verður að yfir 300 tegundum mjólkurvara." Lesið meira og sjáið nýtt myndband á www.naut.is 

Horfa á myndband: ÚR HAGA Í MAGA

 


Minni matarsóun - minni losun!

28.08.2017 14:27

Síðastliðið vor undirrituðu sex ráðherrar í ríkisstjórn Íslands samstarfsyfirlýsingu um gerð aðgerðaráætlunar í loftslagsmálum. Markmið áætlunarinnar er að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt Parísarsamningnum í loftslagsmálum til 2030 með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu koldíoxíðs úr andrúmslofti. Sérstök verkefnisstjórn og sex faghópar vinna áætlunina auk þess sem settur hefur verið upp sérstakur samráðsvettvangur þar sem fulltrúum haghafa og stjórnarandstöðu verður boðið að taka sæti. Aðgerðaráætlunin skal liggja fyrir lok þessa árs.

Faghóparnir sex vinna nú að aðskildum þáttum aðgerðanna, þ.e. um samgöngur, orku og iðnað, sjávarútveg, landbúnað, ferðamennsku og minni sóun og úrgangsmál. Í faghópi um minni sóun og úrgangsmál sitja fulltrúar umhverfis- og auðlindaráðuneytis, Umhverfisstofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Miða tillögur hópsins að því dregið verði annars vegar úr urðun, enda á útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá úrgangi að mestu uppruna sinn að rekja til urðunarstaða, og hins vegar að aðgerðum sem hafa það að markmiði að draga úr myndun úrgangs.  

Í framangreindri vinnu er lögð mikil áhersla á að samfélagið allt taki fullan þátt til að tryggja langtímasýn og -árangur í minni auðlindasóun og uppbyggingu og þróun lágkolefnishagkerfis. Þetta kallar á samstillt átak stjórnvalda, atvinnulífs, félagasamtaka og almennings. Sérstakt vefsvæði tileinkað vinnunni hefur nú verið opnað á slóðinni www.co2.is. Almenningur er hvattur til að senda hugmyndir og tillögur að aðgerðum til verkefnisstjórnar á netfangið loftslag@uar.is. Til upplýsinga má nefna að Norðmenn stefna að því að helminga matarsóun í sinni loftslagsáætlun. Er tilvalið að senda verkefnisstjórn hugmyndir að aðgerðum til að minnka hvers konar sóun, ekki síst matarsóun.

Ætli þráðlausar ísskápsmyndavélar séu vænlegar til árangurs í baráttunni gegn matarsóun?

 

Fjölmenni sótti Óhóf – þörf á vitundarvakningu

18.08.2017 11:14

Óhóf, hóf til vitundarvakningar um matarsóun, fór fram á Petersen svítunni 10. ágúst sl. Atburðurinn var mjög vel sóttur, en Umhverfisstofnun var í hópi þeirra sem stóðu að viðburðinum ásamt Gamla bíó, matreiðslumeistaranum Hrefnu Sætran og samtökunum Vakandi með Rakel Garðarsdóttur í fararbroddi. Gert er ráð fyrir að tæplega 200 hafi komið saman í Óhófinu.

Atburðir þar sem boðið er upp á kræsingar úr illseljanlegum matvörum eru algengir í Evrópu. Þeir þykja skemmtileg leið til að vekja athygli á því óhófi sem við lifum í og til þess var leikurinn gerður.
Mikil umræða varð um matarsóun í kringum atburðinn. Gáfust mörg tækifæri til að fræða landann um aðgerðir til að sporna við matarsóun.

Við lifum á tímum óhófs þar sem þriðjungur matvæla sem framleidd eru er hent einhversstaðar í virðiskeðjunni. Þetta þarf að breytast. Skipuleggjendur Óhófs vildu sýna neytendum og fyrirtækjum að það eru til leiðir til að minnka matarsóun. Þar má til dæmis nefna að vinna úr matvælunum þegar þau liggja undir skemmdum, með að frysta, með að vera ekki hrædd við "best fyrir" merkingu á matvörum (Nota nefið!), með að taka afganga með sér heim, nýta afganga o.s.frv.

Hrefna Sætran útbjó gómsætar brúskettur úr snittubrauði og grænmeti sem ekki seljast í hillum verslana. Einnig var boðið upp á dýrindis „Blóðugar Maríur“ úr útlitsgölluðum tómötum með mysuvodka!

Mysuvodkinn kom frá Foss distillery, sem í samvinnu við Mjólkursamsöluna og KS eru að þróa mysuvodka úr mjólkursykri sem fellur til við ostaframleiðslu. Þessari afurð er annars hent í framleiðsluferlinu.

Gæðabakstur lagði til snittubrauð, en það brauð sem selst ekki ferskt í verslunum er annars tekið tilbaka og gefið í svínafóður. Sölufélag Garðyrkjubænda lagði til grænmeti og tómata í kokteilinn, það grænmeti hafði ekki komist í búðarhillurnar sökum útlitsgalla en er nýtt eftir fremsta megni í vörulínu félagsins „Í einum grænum“ sem býr til fullunnar vörur úr íslensku grænmeti. 

Óhóf

19.07.2017 09:54

Norrænt samstarf gegn matarsóun

30.06.2017 11:23

Árlega er sóað meira en 3,5 milljónum tonna af mat á Norðurlöndunum. Norræna ráðherranefndin hefur samþykkt að stefna að sameiginlegu markmiði um minnkun matarsóunar. Lögð verður áhersla á frumframleiðslu, geymsluþolsmerkingar og dreifingu matvæla í þessu samnorræna verkefni. Einnig verður komið á fót norræna samstarfsnet um matarsóun og bætta nýtingu auðlinda sem mun styðja við sameiginleg átaksverkefni og aðra fræðslu.

 Lestu frekar um þetta frábæra samstarf í frétt Rúv og á fréttavef Norrænu ráðherranefndarinnar

Verslunin er miðpunktur í grænum skiptum

23.06.2017 11:18

Breiður samstarfshópur stendur að baki þessarar síðu og er þar fulltrúi frá Samtökum verslunar og þjónustu (SVÞ). Margt er hægt að gera til að grænka rekstur félagsmanna SVÞ. Í eftirfarandi pistli frá SVÞ er vakin athygli á því hvernig verslanir geta verið miðpunkturinn í grænum skiptum og m.a. minnkað matarsóun mikið.

Verslunin er miðpunktur í grænum skiptum

Viðskiptin sjálf hafa ekki mikil bein áhrif á losun gróðurhúsaloftegunda, en hafa áhrif á birgja, umhverfisval neytenda og heildarlosun. Við verðum að hafa áhrif.

Heild- og smásala greiðir um 9,4% af launum og launatengdum gjöldum á Íslandi og um 14% vinnuafls starfar í heild- eða smásölu og er þetta því sú atvinnugrein sem veitir flestum atvinnu hér á landi.  Rúmlega 8% af landsframleiðslu á Íslandi árið 2016 átti rætur að rekja til heild- og smásöluverslunar og því er þessi geiri einn sá umfangsmesti á Íslandi.

Við teljum að viðræður, samvinna og breið þátttaka á vinnustað um umhverfismál styðji og styrki átak á sviði umhverfismála. Það eru einkum þrjú svið þar sem verslun getur haft áhrif í grænum skiptum:

 • Með eigin aðgerðum (orkunýtni, draga úr notkun jarðefnaeldsneytistegunda í samgöngum, flokkun og meðhöndlun úrgangs)
 • Vera leiðandi fyrir birgja og framleiðendur
 • Hvetja til grænnar neyslu

Naumur tími

Áætlað er að heildareftirspurn eftir auðlindum árið 2050 verði 140 milljarðar tonna en eftirspurnin var um 50 milljarðar árið 2014. Það er 400% meira en jörðin ræður við (Accenture Strategy, "Circular Advantage). Við notum nú þegar meira en jörðin nær að endurnýja á hverju ári. Aukin eftirspurn og minna aðgengi er ekki sjálfbært. Árið 2050 verður skortur á ýmsum mikilvægum málmum og ný úrræði verða mjög dýr.

Mikilvægi hringhagkerfisins

Hringhagkerfið styður við sjálfbæran vöxt og störf í verslun og þjónustustörfum á Íslandi. Hringhagkerfið snýst í meginatriðum um að halda auðlindunum í umferð. Framleiðendur bera ekki aðeins ábyrgð á vörum allan líftíma þeirra, þeir hafa einnig efnahagslegan ábata af því að fá vörur og efni til baka eftir notkun.

Allt þetta skapar ný störf, með nýjum verkefnum og nýjum hugsunarhætti. Fyrirhugaðri sýn verður að nást, m.a. með atvinnuskapandi nýsköpun og alhliða þjálfun fyrir alla starfsmenn.  Fyrirtæki verða í miklu meira mæli að hafa virka nálgun til umhverfis- og loftslagsmála í virðiskeðjunni. Verslanir verða t.a.m. að kortleggja virðiskeðju matvæla til að ná árangi við að sporna gegn matarsóun.

Nauðsynleg aðkoma stjórnvalda

Leiðarvísir að breyttu umhverfi getur komið úr ólíkum áttum – bæði með því að huga að verslunarviðskiptunum sjálfum sem stjórnvöld geta komið að. T.a.m. getur verslunin boðið upp á grænna vöruúrval sem er bæði aðlaðandi og aðgengilegt. Þetta er hægt með því að samtvinna sjálfbærni og undirstöður hringhagkerfisins í hönnun verslana, innkaupum, svæðisskipulagi og öðrum þáttum sem verslunin notar til að auglýsa sig. Umhverfisvottun verslana, umhverfisstaðlar á flutninga, þátttaka í mótun umhverfis og þróunarverkefnum í nærumhverfi verslunarinnar eru þættir sem verslunin gæti nýtt til að skapa samkeppnisforskot. Samhliða þessu ættu stjórnmálamenn að tryggja umhverfi sem gerir það einnig hagkvæmt fyrir verslunina að taka þátt í grænum skiptum.

Að endingu

Smásalar gegna lykilhlutverki í að hringhagkerfið virki þar sem neytendur versla í búðunum þeirra á hverjum einasta degi og eru í auknum mæli að sýna áhuga á umhverfisáhrifum neytendavara. Auk þess hafa Íslendingar tækifæri til að stuðla að samkeppnishæfu hagkerfi sem einkennist af lítilli koltvísýringslosun með vali þeirra.Smásalar er nú þegar virkir að upplýsa og hafa áhrif á val neytenda með því að bjóða þeim ábyrgar afurðir, pökkun með minni umhverfisáhrifum og veita ábendingar um hvernig á að geyma mat og elda með afgöngum til að draga úr matarsóun og skipuleggja upplýsingaherferðir til neytenda um orkusparandi vörur.

Höfundur: Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur SVÞ.

Landspítali og Verandi tilnefnd til Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2017

20.06.2017 11:12

Norræn dómnefnd hefur valið 11 verkefni til Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs úr hópi þeirra tillagna sem borist hafa frá almenningi á Norðurlöndum. Þemað í ár eru verkefni sem færa okkur nær úrgangslausu samfélagi.

Umhverfisverðlaunin eru veitt árlega norrænu fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem hefur tekist á framúrskarandi hátt að flétta náttúru- og umhverfissjónarmið í starfsemi sína, eða hefur á annan hátt lagt fram mikilvægan skerf í þágu náttúru og umhverfis.

Í ár eru Landspítali og Verandi tilnefnd.

Hér má lesa rökstuðning dómnefndar: 

 

Verandi

"Verandi vinnur með sjálfbærni og endurnýtingu með því að framleiða snyrtivörur úr hráefnum sem ella yrði hent. Fyrirtækir endurnýtir m.a. kaffikorg og kakóbaunahrat sem ella yrði úrgangur eftir að hafa ferðast yfir hálfan hnöttinn. Verandi endurnýtir einnig krækiberjahrat, sem verður til við sultuframleiðslu og „byggsag“. Verandi kynnir nýstárlega aðferð þar sem hollum og góðum hráefnum, sem ella yrði hent, er breytt í auðlindir fyrir nýjar vörur. Norrænir neytendur halda áfram að drekka kaffi og borða súkkulaði þrátt fyrir að hráefnin séu ekki ræktuð á svæðinu og að þau þurfi að flytja heimshornanna á milli. Því verður æ brýnna að finna aðferðir sem gefa fólki kost á að nýta dýrmæt hráefnin oftar en einu sinni."

 

Landspítali

"Landspítali er stærsti vinnustaður á Íslandi. Umhverfisstefna Landspítalans er afar metnaðarfull. Þar er t.a.m. rekið svansmerkt matarneyti og starfsfólki er boðið upp á (mjög vinsæla) samgöngusamninga. Landspítali hefur verið í fararbroddi í flokkun úrgangs. Á árunum 2012–2016 tókst næstum að fjórfalda endurnýtingu á plasti og tvöfalda endurnýtingu á lífrænum úrgangi auk þess sem endurnýting pappírs er orðin átta sinnum meiri en árið 2012. Innan tíðar mun Landspítali halda áfram vinnu sinni að loftslagsmarkmiðum en á næstu tíu árum verður reist nýtt sjúkrahús sem verður umhverfisvænt þegar á teikniborðinu. Landspítalinn í Reykjavík er skýr fyrirmynd fyrir samfélagið og geirann með heildarsýn sinni um betra umhverfi og betri heilsu."

Hér eru allar tilnefningarnar

Finnland

Rec Alkaline Ltd - Breytir alkalískum rafhlöðum í hreinan snefilefnaáburð

RePack - Endurnýtanlegar umbúðir fyrir rafræna verslun

 

Ísland

Landspítali - háskólasjúkrahús - Minni sóun, áhersla á færri einnota hluti, endurvinnslu og matarsóun

Verandi - Framleiðir vandaðar húðvörur með því að endurnýta auðlindir náttúrunnar

 

Noregur

Restarters Oslo - Hvetur fólk til að tileinka sér skapandi og félagslega viðgerðamenningu

Hold Norge Rent - sjálfboðasamtök sem vinna gegn mengun

Eyde-klyngen - Leiðandi afl í hringrásarhagkerfi iðnaðarins: Verðmæti úr úrgangi

 

Svíþjóð

ALLWIN - dregur úr matarsóun, 2 milljónir máltíða á ári fyrir bágstadda

Matcentralen, Stockholms Stadsmission - vinnuaðlögun og endurdreifing afgangsmatar

ICA og Rescued Fruits - Drykkir búnir til úr hólpnum ávöxtum frá ICA

Swedish Algae Factory - Eykur skilvirkni sólarrafhlaðna með efni unnu úr þörungum

 

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2017 verða afhent í 23. sinn í Helsinki þann 1. nóvember 2017 á þingi Norðurlandaráðs. Verðlaunaféð er 350.000 danskar krónur (rúmlega 5,3 mill ISK). Lesið nánar um verðlaunin hér.

Mynd: Eigendur Verandi, þær Elva Björk Barkardóttir og Rakel Garðarsdóttir

10 húsráð gegn matarsóun

20.06.2017 09:52

Matarsóun.is facebook síða

16.06.2017 10:21

Matarsóun.is er með virka facebook hliðstæðu undir sama nafni. Þar rata oft inn stuttir fróðleiksmolar og skemmtiefni um matarsóun sem enda ekki endilega á síðunni hér. Endilega fylgið síðunni þar og dreifið fróðleiknum sem víðast!

 

Frysting matvæla

18.05.2017 13:32

Frysting matvæla er mjög hentug geymsluaðferð sem hægir á vexti örvera og dregur úr ensímhvörfum í ferskum matvælum. Frysting er frábær aðferð til að auka geymsluþol og getur sparað okkur bæði tíma og pening ef rétt er staðið að málum.

Nauðsynlegt er að hafa yfirsýn yfir það sem sett er í frystinn og það sem tekið er úr honum svo matvælin séu ekki sett í frystinn og gleymd þar, þar til gæði þeirra hafa rýrnað og geymsluþolið útrunnið.  

Hér eru nokkur góð ráð til að tryggja öryggi matvælanna og hvernig er best að standa að frystingu matvæla, hvað varðar pökkun í umbúðir, frystitíma og fleira.

 

 

Þættir sem hafa áhrif á geymsluþol

Ástand matvælanna fyrir frystingu ákvarða gæði þeirra eftir frystingu. Frosin matvæli verða aldrei betri en þau eru þegar þau eru sett í frystinn. Frysting er ekki aðferð til að losna við örverur í matvælum séu þær til staðar. Aðferðin hægir á vexti örvera og efnabreytingum sem hafa áhrif á gæði og heilnæmi matvælanna.

Ensím

Hafa má áhrif á virkni ensíma með frystingu, hitun og efnaskiptum. Frysting hægir á virkni ensíma þannig að ýmis matvæli geymast mun betur í frysti án þess að matvælin séu unninn eitthvað frekar fyrir frystingu. Dæmi um slík matvæli eru kjöt og ávextir. 

Með því að hita matvæli fyrir frystingu getum við eytt virkni ensíma og þannig geymast matvælin betur í frysti. Þessi aðferð kallast hvataeyðing (blanching) en hún er mjög oft notuð fyrir grænmeti áður en það er fryst en einnig ávexti. Þá eru matvælin sett í heitt vatn (88°C-100°C) í 1-10 mín, mismunandi eftir matvælum, eða í 100°C heita gufu í 1/2 – 1 mín (eða skemur).  Aðferðin hefur áhrif á áferð og útlit en kemur minna að sök hjá grænmeti sem er soðið fyrir notkun.

Loft

Súrefnið í loftinu getur haft áhrif á bragð og liti ef matvælin eru ekki nógu vel pökkuð inn.

Örverur

Frysting drepur ekki allar örverur, en þær hætta að vaxa við hitastig lægra en frostmark. Um leið og matvæli eru uppþýdd og geymd við stofuhita byrja örverur að fjölga sér. Þess vegna er mjög mikilvægt að þýða matvæli upp í kælisáp og hafa disk undir þannig að vökvi frá þeim leki ekki yfir í aðrar vörur.

Ískristallar

Hraði frystingar hefur áhrif á gæði matvælanna, því hraðari sem frystingin er því betra. Við hraða frystingu myndast smáir ískristallar í vörunni en við hæga frystingu myndast stórir ískristallar sem valda því að frumur eyðileggjast og óæskilegar breytingar verða á áferð matvælanna. Í sumum tilfellum má skera matvæli niður í minni bita eða sneiðar til að auka frystihraða.

Frystihitastig

Nauðsynlegt er að halda matvælunum við -18°C eða lægra hitastig til að halda sem mestum gæðum. Eftir því sem hitastigið hækkar því minna verður geymsluþol matvælanna.

Best er að halda hitastiginu eins stöðugt og hægt er. Ef miklar breytingar eru á hitastigi við geymslu myndast stórir ískristallar sem hefur slæm áhrif á gæði matvælanna. Miklar hitabreytingar geta einnig haft þau áhrif að matvælin verða fyrir vatnstapi.

Rakatap

Ófullnægjandi umbúðir um matvæli geta orðið þess valdandi að raki, litur, bragð og áferð tapast við geymslu. Ef ískristallar á yfirborðinu gufa upp myndast frostbruni á yfirborðinu þ.e. þurrir og dökkir blettir sem gerir matvælin ólystug.

Notkun umbúða

Umbúðum er ætlað að varðveita öryggi og gæði matvæla, koma í veg fyrir þornun og fyrirbyggja utanaðkomandi mengun. Þær þurfa auk þess að vera þægilegar í notkun og umhverfisvænar.

Mikilvægt er að nota umbúðir á réttan hátt og aðeins í samræmi við merkingar. Ef umbúðir eru aðeins gerðar til að geyma ákveðna tegund matvæla á það að koma fram í merkingu á þeim. Ávallt skal fylgja leiðbeiningum um notkun þegar umbúðir eru keyptar.

Umbúðir sem sérstaklega eru ætlaðar fyrir matvæli eru auðkenndar á eftirfarandi hátt:

 • Vöruheiti sem gefur til kynna notkunarsvið, t.d. “matvælapokar” eða “bökunarpappír”
 • Textanum: “Fyrir matvæli”
 • Glas og gaffal merkið
 • Leiðbeiningum um rétta notkun

Vert er að hafa í huga að röng notkun getur leitt til þess að óæskileg efni úr umbúðum berist í matvæli og valdi hugsanlegu heilsutjóni. Efnin eru bæði ósýnileg og bragðlaus.

Helstu þættir sem hafa áhrif á flæði efna úr umbúðum eru:

 • Eiginleikar og samsetning umbúða
 • Hækkað hitastig og lengri geymslutími eykur flæði
 • Gerð matvæla, einkum magn fitu og sýrustig
 • Hlutfallsleg stærð yfirborðs sem er í snertingu við matvælin

Góðar umbúðir sem henta vel til frystingu ættu að hafa eftirfarandi eiginleika:

 • Koma í veg fyrir uppgufun og vera vatnsheldar
 • Hannaðar sérstaklega fyrir matvæli
 • Verða ekki viðkvæmar né brotna við lágt hitastig
 • Hrinda frá sér olíu, fitu eða vatni
 • Ljósþéttar umbúðir minnka hættu á þránun
 • Vernda bragð og ilm matvæla
 • Auðvelt að fylla þau og loka
 • Auðvelt að merkja og geyma

Velja verður umbúðir eftir því hvaða matvæli á að frysta.

Ílát

Dæmi um ílát sem hægt er að nota til frystinga eru plastílát, glerílát, álílát og pappaílát með vaxhúð. Þessi ílát má í flestum tilfellum nota oftar en einu sinni. Lögun þeirra gerir það að verkum að oft er auðveldara að fjarlægja frosin matvæli úr þeim. Ef glerkrukkur eru notaðar til að frysta matvæli þarf að athuga sérstaklega að þær séu gerðar til þess að geymast við lágt hitastig. Ekki er öruggt að venjulegar glerkrukkur þoli frystingu. Sérstaklega skal varast að setja vökva í glerkrukkur til frystingar. Vökvinn þenst út við frystinguna og gæti brotið glerið.

Endurnotkun umbúða

Margvísleg ílát, einkum úr ýmiss konar plasti og gleri, má nota aftur til að geyma matvæli í en þó þarf að huga að samsetningu matvælanna og að sýrustig sé ekki mjög frábrugðið því sem áður var í umbúðunum og hitastig sé svipað. Einnig þarf að gæta vel að því að ílátin séu vel þvegin fyrir notkun.

 • Ílát undan ís og mjólkurvörum eru t.d. mjög hentug til að frysta matvæli í eða geyma í kæli.
 • Forðast ætti að nota mjúk og/eða lituð plastílát fyrir feit matvæli.
 • Innkaupapokar og sorppokar henta ekki til geymslu á matvælum.

Frystipokar

Þegar frystipokar eru notaðir er best að tæma allt loft úr pokanum áður en pokanum er lokað. Loka þarf vel fyrir pokann þannig að ekkert loft fari aftur inn í pokann.

Um frystiskápa/frystikistur

 • Haldið hitastigi við -18°C eða kaldara
 • Hafið hitastigsmæli í frystinum nálægt hurð eða fremst
 • Passið að yfirhlaða ekki frystigeymsluna
 • Athugið hitastig frysti reglulega
 • Setjið ekki heit matvæli í frystirinn
 • Hafið frysti eins mikið lokaðan og hægt er. Í hvert skipti sem hann er opnaður skapast hitasveiflur

 

Fræðslutexti: Matvælastofnun

 


Samstarf Landspítala og Samhjálpar

16.05.2017 14:54

Daglega framleiðir eldhús Landspítala um 1,4 tonn af heitum mat fyrir sjúklinga og gesti. Til að tryggja góða þjónustu er framleitt meira en eftirspurn er. Í átaksverkefni um matarsóun nú í vetur var farið í ýmsar aðgerðir til að sporna við óþarfa sóun og bæta þjóunustu, m.a. að yfirfara skammtastærðir, þróa pöntunarkerfi í matsölum og hafa sveigjanlegri skammtastærðir samkvæmt óskum starfsmanna. 

Síðan í febrúar hefur verið komið á verklagi um að safna óseldum mat úr Hringbrautareldhúsi sem gefinn er Samhjálp. Vikulega fara um 240 matarskammtar til Samhjálpar sem daglega fá fjölda þurfandi gesta í mat. 240 matarskammtar eru um 0.5% af framleiðslu dagsins. Gera má ráð fyrir að lífrænn úrgangur spítalans minnki um 3,2 tonn/ári af þessum sökum.

Alþjóðlegi diskósúpudagurinn

04.05.2017 09:21

Alþjóðlegi diskósúpudaginn var haldinn hátíðlegur síðastliðinn laugardag. Því eldaði diskósúpudrottning Íslands, Dóra Svavarsdóttir frá Culina veitingar, 100 lítra af súpu úr hráefni sem hefði annars verið sóað. Viðburðurinn var skipulagður af Slow Food Reykjavík

„Þetta eru 100 lítrar af súpu - þannig að þetta er full máltíð handa 200 til 300 manns. Og þetta átti að fara í ruslið," segir Dóra Svavarsdóttir

Sjá frétt af viðburðinum hér á Vísi. Mynd: Vísir/Egill.

Mygluð matvæli - hvað má skera burt og hvað á að varast?

25.04.2017 17:20

Oftast þarf að henda mygluðum mat en stundum má skera mygluna frá. Það fer eftir eðli matvælanna, þ.e, þéttleika og vatnsinnihaldi. Í rökum og loftkenndum matvælum getur mygla náð að spíra mun lengra og sjást þræðirnir ekki vel með berum augum.

Sum mygla getur valdið ofnæmisviðbrögðum og öndunarerfiðleikum, önnur geta innihaldið sveppaeitur (mycotoxin) sem eru krabbameinsvaldandi efni. Ef myglueitur er til staðar þá hverfur það ekki við eldun matvæla. En hvenær er óhætt að skera myglu frá og hvenær á að henda matvælunum:

Myglað brauð 

Alltaf skal henda mygluðu brauði, þar sem mygla getur verið til staðar án þess að hún sjáist. 

Myglaðir ávextir og grænmeti

Alltaf skal henda mygluðum vatnsmiklum ávöxtum (t.d. plómum, appelsínum, melónum) og vatnsmiklu grænmeti (t.d. agúrku, tómötum). Mjög mikilvægt er að nota aðeins óskemmd ber og ávexti við gerð sultu og safa. 

Í þéttara og vatnsminna grænmeti eins og gulrótum og káli má skera myglu bletti frá. 

Hvít himna á sveppum

Ef hvít himna er á rót sveppa þá er það ekki mygla heldur þeirra eigin mycelium. Það má einfaldlega skera hvítu himnuna af ásamt ögnum af jarðvegi. 

Mygluð sulta

Ef myglublettir sjást í sultu þá á alltaf að henda henni, sveppaeitur getur hafa dreifst um alla sultuna í krukkunni.

Myglaðar hnetur 

Alltaf skal henda mygluðum hnetum. Athuga þarf sérstaklega hvort parahnetur (brasil nut) séu myglaðar í miðjunni. 

Myglaðar mjólkurvörur

Öllum mjólkurvörum eins og rjóma, sýrðum rjóma eða mjúkostum (t.d. brie) skal henda ef einhver mygla er til staðar (önnur en mygla sem er eðlilegur hluti af ostinum). Myglubletti á hörðum ostum má skera frá, auk 1 cm af ostinum sjálfum í kringum myglublettinn. 

Myglað kjöt

Mygluðu kjöti skal alltaf henda ef vart verður við myglu. Ekki er nóg að fjarlægja sjáanlega myglubletti, það sama á við um lifrarpate og önnur kjötálegg.

Birt með leyfi frá Matvælastofnun, sjá frétt á mast.is hér.

 

Rannsókn á matarsóun Íslendinga

11.04.2017 16:33

Í síðasta tölublaði Neytendablaðsins var birt viðtal við Guðmund B. Ingvarsson, sérfræðing hjá Umhverfisstofnun, en hann hafði umsjón með gerð rannsóknar þar sem nýjustu upplýsingar um matarsóun Íslendinga voru birtar. Í viðtalinu fer Guðmundur yfir helstu niðurstöður rannsóknarinnar. 

 Lesið viðtalið hér.

Hvað er SuperCook?

22.03.2017 11:07

Af hverju fara út í búð og kaupa fullt af hráefnum í uppskrift þegar þú getur fundið fullkomna uppskrift útfrá því sem þú átt nú þegar heima?

Á dögunum rákumst við á leitarvélina SuperCook en hún finnur uppskriftir útfrá hráefni sem maður á heima hjá sér í skápunum.Leitarvélin er mjög einföld í notkun. Þú skráir inn hvaða hráefni þú vilt vinna úr, t.d. eitthvað sem er að renna út og þig langar að nýta, og leitarvélin finnur uppskriftir með þessu hráefni/um og sýnir líka mögulega hvað vantar í uppskriftahugmyndirnar. Mögulega áttu líka það sem vantar eða getur nýtt eitthvað sambærilegt úr skápunum svo þú þurfir ekki að rjúka af stað út í búð. 

Smelltu hér og kíktu á SuperCook leitarvélin 

Námskeið í jarðgerð hjá LbhÍ

10.03.2017 18:33

Fleiri og fleiri taka þátt í að endurvinna það sem fellur til á heimilum og á vinnustöðum. Hvernig væri að taka skrefið og kynna sér jarðgerð og safnhaugagerð?

Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem áhuga hafa á endurnýtingu lífrænna afurða sem til falla á heimilum og í görðum. Á námskeiðinu verður fjallað um undirstöðuatriði jarðgerðar. Fjallað verðurum hvaða hráefni sé hægt að nýta til jarðgerðar og æskileg blöndunarhlutföll þeirra. Farið verður yfir meðhöndlun og umhirðu safnhaugsins með tilliti til þess hvernig ná megi jöfnu og góðu niðurbroti. Lokaafurð jarðgerðar er kjörinn áburður til notkunar í heimilisgarðinn, landgræðslu eða skógrækt. Hluti námskeiðsins er verkleg sýnikennsla. 

Kennari: Gunnþór K. Guðfinnsson garðyrkjufræðingurog stundarkennari við LbhÍ.
Tími: Lau. 18. mars, kl. 9:00-15:00 hjá Landbúnaðarháskóla Íslands, Reykjum, Ölfusi.
Verð: 16.500 kr. (Kaffi, hádegismatur og gögn innifalin í verði)
Skráning og frekari upplýsingar: www.lbhi.is/namskeid og póstfangið: endurmenntun@lbhi.is 

Minnum nemendur á starfsmenntasjóði eins og t.a.m. Starfsmenntasjóð bændasem styrkir þá sem búa á lögbýlum um allt að 33.000kr á hverju ári.

Norræn skýrsla um matarsóun í frumframleiðslu

28.02.2017 10:53

Í byrjun vikunnar gaf Norræna ráðherranefndin út skýrslu um matarsóun í frumframleiðslu. Skýrslan er samantekt sex rannsókna á matarsóun sem á sér stað við frumframleiðslu í Norðurlöndunum. Ræktun á gulrótum, laukum, korni og baunum ásamt fiskeldi var skoðuð. 

Niðurstöður rannsóknanna sýndu að mesta sóunin á sér stað eftir uppskeru, þ.e. við pökkun og geymslu afurðanna. Veðurfar og sjúkdómar sem herja á uppskerur hafa einnig mikil áhrif. Erfitt var að meta magn sóunar við fiskeldi en líklegir helstu skaðvaldar eru sjúkdómar og rándýr. 

Hér má finna skýrsluna: Food losses and waste in primary production 

Ráð gegn matarsóun leynast víðs vegar

24.02.2017 11:48

Alltaf er hægt að læra eitthvað nýtt og minnka matarsóun enn frekar. Ráð gegn matarsóun leynast víðs vegar. Í vikunni deildi Matur á mbl.is tveimur fréttum um mat og skipulag. En gott skipulag í eldhúsinu og við matarinnkaup getur einmitt komið í veg fyrir mikla matarsóun. 

Hér má lesa fréttirnar:

 

Matarsóun í Kastljósi

10.02.2017 13:19

Kastljós gærkvöldsins vakti athygli á matarsóun Íslendinga. Dóra Svavarsdóttir matreiðslumeistara deildi þar hagnýtum ráðum gegn matarsóun á heimilum, en hún hefur haldið námskeiðin "Eldað úr öllu" í samstarfi við Landvernd, Kvenfélagasamband Íslands og Vakandi. Fleiri ráð frá Dóru má sjá í myndböndum sem finnast hér undir flipanum Uppskriftir og myndbönd.

 Hægt er að horfa á innslagið úr Kastljósi og lesa tengda frétt hér.

Hótel Fljótshlíð sýnir hvernig má minnka matarsóun

06.02.2017 09:22

Ljóst er að matarsóun er stórt vandamál sem á við alla en einnig eitthvað sem allir geta unnið gegn. Mikilvægt er að vekja athygli á þeim sem standa sig vel í baráttunni gegn matarsóun. Hótel Fljótshlíð hefur unnið markvisst að því að minnka matarsóun í rekstri sínum undanfarin ár. Eftirfarandi er pistill um aðgerðir þeirra gegn matarsóun og hvernig þau ætla að ná enn háleitari markmiðum árið 2017.

Matarsóun á veitingastöðum

Hótel Fljótshlíð er Svansvottað hótel og veitingastaður. Þar hafa verið stundaðar mælingar á matarsóun um langt skeið en vigtun lífræns úrgangs er lykilforsenda fyrir því að unnt sé að setja sér markmið til að draga úr sóun og kortleggja hvar í ferlinu sóunin fer fram. Hótelið hefur unnið markvisst að því að draga úr matarsóun og náð góðum árangri, á síðasta ári náðum við markmiðum um að draga úr matarsóun um 20% og setjum okkur markmið um minnka matarsóun árið 2017 um fjórðung.

Matarsóun frá framleiðanda til neytenda

Rannsóknir hafa sýnt að á íslenskum heimilum er um þriðjungi matvæla sóað og endar þar með í ruslatunnum heimila með tilheyrandi umhverfisáhrifum. Hafa verður í huga að á ferðalagi matar frá framleiðanda til birgja og/eða kaupmanna og loks til neytenda fer líka fram matarsóun á hverjum viðkomustað matarins. Að draga úr matarsóun er því sameiginlegt verkefni okkar allra - allt frá framleiðendum til neytenda.

Leiðir hótelsins til að draga úr matarsóun

Matarsóun á sér ekki aðeins stað eftir að matur hefur verið settur á disk. Hafa verður í huga hættu á matarsóun allt frá þeirri stundu sem matur er pantaður inn frá birgja þar til losun fer fram á lífrænum úrgangi en margir viðkomustaðir matar eru á þessari leið. Huga þarf að matarsóun við innkaup, geymslu hráefnis, úrvinnslu þess, framreiðslu og loks þarf að huga að losun lífræns úrgangs. Hótel Fljótshlíð er staðsett á býlinu Smáratúni sem er einn stofnaðila Beint frá býli. Með því að framleiða sjálf hráefni fyrir veitingastaðinn drögum við úr áhættu á sóun matvæla á ferðalagi matar frá framleiðanda til hótelsins. Hótelið leggur því sífellt meiri áherslu á aukna framleiðslu á staðnum og tryggir um leið ferskleika og gæði matarins.

Innkaup og meðhöndlun hráefnis

Innkaup veitingastaða þarf að laga að aðstæðum til geymslu og nýtingar. Úrvinnsla hráefnis þarf að vera öguð og tryggja að það hráefni sem ekki er nýtt í dag sé ekki hent heldur geymt þannig að unnt sé að nýta síðar. Það er til dæmis engin ástæða til að henda beinum eftir úrbeiningu en kaupa síðan soð til sósugerðar. Í hótel Fljótshlíð er soð unnið úr beinum eftir úrbeiningu. Ef fyrirséð er að ber verði ekki nýtt næstu daga er um að gera að safna þeim saman í frysti og sulta síðar í stað þess að láta þau skemmast í ísskápnum, það sama á við um appelsínur og ýmsa aðra ávexti. Svona mætti lengi telja. Það er líka gríðarlega mikilvægt að það sé sameiginlegt verkefni allra starfamanna að draga úr matarsóun og að allir séu meðvitaðir um markmiðin því betur sjá augu en auga. Ein leið til að draga úr matarsóun á veitingastöðum er að merkja sérstaklega hillu í kæli fyrir mat sem starfsfólki er velkomið að neyta í stað þess að matvælum sé sóað.

Framreiðsla og fræðsla

Í hótel Fljótshlíð hefur t.d. verið endurskoðað hvernig morgunverður er framreiddur en mælingar hótelsins hafa sýnt að minna af matvælum hefur verið sóað eftir að hætt hefur verið notkun einnota umbúða fyrir smjör, sultur, skyr o.fl. sem miðaðar eru að skömmtum fyrir einstaklinga. Um leið minnkar umfang rusls sem einstaklingsskammtar leiða af sér. Fræðsla til gesta um hve þyngd matar var sem sóað var deginum áður í hótelinu hefur haft ótvíræð áhrif á gesti og mælingar hafa sýnt að á háannatíma hafði einfalt upplýsingaskilti þess efnis þau áhrif að matarsóun minnkaði um u.þ.b. 2 kíló á dag. Framreiðsla matar skiptir gríðarlega miklu máli þegar kemur að matarsóun og margar leiðir eru færar til að hafa áhrif á matarsóun við framreiðslu.

Losun lífræns úrgangs

Nýting hráefnis verður kannski seint 100% þrátt fyrir allar aðgerðir og góðan vilja, alltaf verða einhverjir afskurðir og slysin gerast, en þá er um um að gera að láta ekki hugfallast og læra að mistökum. Auk þess verður seint komið í veg fyrir að það verði einhverjir afgangar. Þá þarf að huga að losun. Í hótel Fljótshlíð fara engin matvæli í almennt sorp. Þess í stað er lífrænn úrgangur nýttur til moltugerðar eða sem dýrafóður fyrir hænsn og grísi. Í lífrænum úrgangi felast þannig verðmæti sem heldur er engin ástæða til að sóa. 

Matarsóun í fjölmiðlum

23.01.2017 09:53

Fjallað var um matarsóun í stærstu fjölmiðlum landsins undanfarna viku.   

Miðvikudaginn, 19. janúar, var greinin Venjan að hafa allt of mikinn mat á borðum birt í Fréttablaðinu. Í greininni var rætt við Ingunni Gunnarsdóttur, sérfræðing hjá Umhverfisstofnun, um þennan vef og matarsóun á Íslandi. Vakin var athygli á þeim ýmsu tólum gegn matarsóun sem finnast á síðunni, svo sem skammtareiknivél til að áætla betur hversu mikið magn þarf að elda. 

Sunnudaginn 22. janúar var fjallað ítarlega um matarsóun í kvöldfréttum RÚV. Nýr umhverfis- og auðlindaráðherra, Björt Ólafsdóttir, sagði frá aðgerðum á Íslandi og lagði áherslu á mátt einstaklingsins til að minnka sóun. Einnig var danski aðgerðasinninn Selina Juul (Stop Spild Af Mad) tekin í viðtal þar sem hún sagði frá markvissum aðgerðum Dana gegn matarsóun. Fréttina má sjá hér, en hún byrjar eftir um 14:40 mínútur.

Átak Landspítalans gegn matarsóun

10.01.2017 12:55

Á Landspítala stendur yfir verkefni um að draga úr matarsóun. Tími var kominn á að endurtaka velheppnað átak frá árinu 2012. Eldhús spítalans framleiðir um 1,4 tonn af heitum mat á dag eða um 5000 máltíðir. Eldhúsið skammtar mat í 9 matsölum vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið. Lífrænn úrgangur frá eldhúsinu nemur ríflega 100 tonnum á ári, hluti eru afskurðir en stór hluti eru matur. Undanfarið hefur verið kortlagður ferill matarins og tækifæri greind til að draga úr matarsóun. Á næstunni verður meðal annars unnið að því að bæta áætlanagerð, aðlaga skammta og í skoðun er að gefa óselda skammta. 

Það verður spennandi að sjá hverju þessar aðgerðir hjá Landspítalanum munu skila!

Landvernd og matarsóun

06.01.2017 12:40

Landvernd hefur unnið markvisst gegn matarsóun síðan 2013. Matarsóunarverkefninu Zero Waste var stýrt af Landvernd og unnið í samvinnu við Kvenfélagasamband Íslands, Vakandi hreyfinguna, Stop spild af mad í Danmörku og Matvett í Noregi. Á vordögum 2014 fékk hópurinn styrk frá Norrænu ráðherranefndinni og markaði það upphaf verkefnisins. Zero waste verkefnið skiptist upp í fimm verkþætti; ráðstefnur/viðburði um matarsóun, matreiðslubók um afganga, heimildarmynd um matarsóun og tískusóun, stutt myndbönd og námskeið. Afurðir þessa verkefnis er að finna hér á matarsoun.is.

Árið 2015 fór Landvernd í samstarf við Reykjavíkurborg og vann forrannsókn sem sýndi að matvælum fyrir 4,5 milljarða króna er hent árlega af reykvískum heimilum. Í framhaldi þessarar forrannsóknar héldu Landvernd og Reykjavíkurborg áfram samstarfi árið 2016 og réðust í átak gegn matarsóun inni á vinnustöðum borgarinnar. Verkefnið var prufukeyrt í Ráðhúsi Reykjavíkur í desember 2016 og lögð verður áhersla á matarsóun í Grænum skrefum í starfsemi Reykjavíkurborgar sem vinnustaðir borgarinnar hafa tekið þátt í frá 2011. Reynslan af þessu átaksverkefni mun nýtast í áframhaldandi vinnu við að draga úr sóun á mat á vinnustöðum borgarinnar.

Rannveig Magnúsdóttir, verkefnisstjóri matarsóunarverkefnis Landverndar hefur haldið fjölmörg erindi um matarsóun m.a. í skólum, fyrirtækjum, félögum og sveitarfélögum. Hægt er að hafa samband við hana ef óskað er eftir fræðsluerindi. Landvernd hefur tekið þátt í fjölmörgum ráðstefnum og viðburðum sem tengjast matarsóun, m.a. á sýningunni „Saman gegn sóun“ sem haldin var í Perlunni 9.-10. september 2016. Landvernd fagnar því hve umræðan um matarsóun hefur aukist á undanförnum árum og því til vitnis má benda á innslagið um matarsóun í Áramótaskaupi 2016 . Landvernd mun halda áfram að vinna gegn matarsóun á árinu 2017 með Reykjavíkurborg og öðrum samstarfsaðilum.

Ráðhús Reykjavíkur tók þátt í verkefni Landverndar og Reykjavíkurborgar gegn matarsóun

03.01.2017 16:02

Myndbönd um niðurstöður átaksins má finna hér

Matarsóun er mikið í umræðunni þessa dagana á Íslandi sem og á heimsvísu. Almennt er talið að um þriðjungi framleiddra matvæla sé sóað. Þessi sóun á sér stað á öllum stigum virðiskeðju matvæla, allt frá ræktun og uppskeru til neytenda. Með því að draga úr þessari sóun má nýta betur fjármagn, auðlindir sem og koma í veg fyrir óþarfa losun gróðurhúsalofttegunda.

Forrannsókn Landverndar sem unnin var fyrir styrk frá Reykjavíkurborg árið 2015 sýndi að matvælum fyrir 4,5 milljarða króna er hent árlega af reykvískum heimilum. Samkvæmt mælingum inni á sautján heimilum hendir hver einstaklingur um 48 kg á ári sem gerir um 150 þúsund krónur fyrir fjögurra manna fjölskyldu. Í framhaldi þessarar forrannsóknar héldu Landvernd og Reykjavíkurborg áfram samstarfi árið 2016 og réðust í átak gegn matarsóun inni á vinnustöðum borgarinnar. Ákveðið var að prufukeyra verkefnið í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Þetta átak gegn matarsóun stóð í eina viku, dagana 8. – 15. desember 2016, og var byrjað á því að vigta matarleifar eftir hádegismat starfsmanna í mötuneyti Ráðhússins. Þessi vigtun var framkvæmd áður en starfsfólk Ráðhússins hafði fengið nokkra fræðslu. Að auki voru matarleifar annarra starfsmanna, sem einnig nota mötuneytið, vigtaðar og notaðar sem viðmið, því þeir starfmenn fengu litla fræðslu. Þann 9. desember hélt Rannveig Magnúsdóttir, verkefnisstjóri matarsóunarverkefnis Landverndar, fyrirlestur um matarsóun og efni var miðlað til starfsmanna í daglegum tölvupóstum um hvernig draga megi úr matarsóun með betri nýtingu og geymslu á matarafgöngum. Að auki voru útbúin veggspjöld um matarsóun sem staðsett voru við inngang mötuneytisins og góð ráð hengd upp við hlaðborðið. Rakel Garðarsdóttir, áhugamaður um matarsóun og stofnandi Vakandi hreyfingarinnar, hélt stutta hugleiðslu fyrir starfsfólk í einu hádeginu og gaf góð ráð. Verkefninu lauk svo með því að matarleifar í mötuneytinu voru aftur vigtaðar viku síðar, til að kanna hvort árangur hafði hlotist af verkefninu. Í ljós kom að starfsmenn Ráðhúss Reykjavíkur sóuðu 14,3% minna af mat eftir að hafa fengið fræðslu um matarsóun í heila viku. Til samanburðar þá jókst matarsóun annarra starfsmanna sem nota mötuneytið um tæp 6% á þessum tíma. Tvö myndbönd voru útbúin í átaksvikunni, eitt  í byrjun átaksins þar sem verkefnið er kynnt og annað þar sem Sigurður Björn Blöndal, formaður borgarráðs, segir mikilvægt að sporna gegn matarsóun og sóa ekki verðmætum.

Ákveðið hefur verið að leggja enn frekari áherslu á matarsóun í Grænum skrefum í starfsemi Reykjavíkurborgar sem vinnustaðir borgarinnar hafa tekið þátt í frá 2011. Reynslan af þessu átaksverkefni mun nýtast í áframhaldandi vinnu við að draga úr sóun á mat á vinnustöðum borgarinnar.

Átak gegn matarsóun í Ráðhúsi Reykjavíkur

14.12.2016 13:18

Landvernd vinnur þessa dagana með Ráðhúsi Reykjavíkur í baráttunni gegn matarsóun. Þetta vikuátak byrjaði á því að allar matarleifar eftir hádegismatinn voru vigtaðar. Síðan tók við dagleg fræðsla til starfsmanna um matarsóun og hvernig hægt er að draga úr henni. Að viku liðinni verða matarleifarnar vigtaðar aftur og vonandi hægt að sýna fram á árangur fræðslunnar. Þetta átak er samstarfsverkefni Landverndar og Reykjavíkurborgar. Niðurstöður þessarar prufukeyrslu með Ráðhúsinu verða teknar saman og nýttar sem hluti af Grænum skrefum borgarinnar sem allir vinnustaðir hennar munu geta nýtt sér.

Á facebook síðu Reykjavíkurborgar er hægt að horfa á stutt myndband um átakið. 

Matarsóun í fjölmiðlum

07.12.2016 12:43

Matarsóun er mikið í deiglunni þessa dagana og fjölmiðlar fjallað mikið um málefnið. 

Hér má finna það sem hefur verið gefið út undanfarna daga um matarsóun:

- Nokkur af helgarblöðunum fjölluðu um niðurstöður nýrrar rannsóknar Umhverfisstofnunar á umfangi matarsóunar á Íslandi.

- Í jólablaði Húsfreyjunnar er að finna greinina "Notaðu nefið" þar sem lesa má um matarsóun og geymsluþol matvæla.

- Í jólablaði Gestgjafans er að finna matarsóunaropnu sem inniheldur ýmis ráð gegn matarsóun, uppskrift til að nýta ávexti á síðasta snúningi og fleira.

Greinilegt er að vakning er í samfélaginu fyrir þessu málefni og vonandi stíga allir skrefið í áttina að betri nýtni í kjölfarið.

Kvenfélagasamband Íslands gegn matarsóun

06.12.2016 10:21

Margir standa að þessari síðu og sameiginlegu átaki gegn matarsóun á Íslandi. Að neðan má lesa frásögn Hildar Helgu Gísladóttur framkvæmdastjóra Kvenfélagasambands Íslands um aðgerðir þeirra gegn matarsóun og hlutverk þeirra í samstarfshópnum. Einnig vekjum við athygli á pistli um matarsóun og geymsluþol matvæla í nýútgefnu jólablaði Húsfreyjunnar. 

„Eitt af markmiðum Kvenfélagasambands Íslands (stofnað 1930) er að standa vörð um hag heimilanna í landinu. Meðal þess sem Kvenfélagasambandið gerir til þess er að koma á framfæri hugmyndum og ábendingum um almenn framfaramál. 

Segja má að þegar Kvenfélagasamband Íslands reið á vaðið hér á landi með því að álykta og boða aðgerðir til að sporna gegn matarsóun á 47. formannaráðsfundi KÍ í nóvember 2012 hafi Kvenfélagasambandið hafið mikla og þarfa byltingu og sem fjölmörg félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar hafa orðið hluti af síðan.

Kvenfélagasambandið leitaði til Landverndar um samstarf og verkefnið „Saman gegn matarsóun“ varð til og fór af stað með Landvernd, Vakandi og Zero Waste ásamt Kvenfélagasambandinu og hlaut verkefnið styrk frá Norrænu ráðherranefndinni árið 2013. Síðan og samhliða því hafa ótal þörf og verðug verkefni sem sporna gegn matarsóun skotið upp kollinum og það sem kanski mest er um vert, þá hefur orðið almenn hugarfarsbreyting um málefnið meðal landsmanna. 

Víða er hægt að sækja nýtilegan fróðleik um efnið og í jólablaði Húsfreyjunnar 2016 er að finna ágæta grein, Notaðu nefið, sem Jónína Þ. Stefánsdóttir þýddi úr dönsku.“

Niðurstöður nýrrar rannsóknar á matarsóun á Íslandi

05.12.2016 17:18

Matarsóun er mikið í umræðunni þessa dagana á Íslandi sem og á heimsvísu.  Almennt er talið að um þriðjungi framleiddra matvæla sé sóað. Þessi sóun á sér stað á öllum stigum virðiskeðju matvæla, allt frá ræktun og uppskeru til neytenda. Með því að draga úr þessari sóun má nýta betur fjármagn, auðlindir sem og koma í veg fyrir óþarfa losun gróðurhúsalofttegunda.

Undanfarin misseri hafa mörg Evrópulönd reynt að meta umfang matarsóunar hvert í sínu landi og liggja nú fyrir niðurstöður fyrstu slíkrar rannsóknar sem gerð hefur verið hér á landi. Umhverfisstofnun vann að rannsókninni með styrk frá Evrópsku hagstofunni (EUROSTAT) og umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Lagt var upp með að mæla matarsóun hjá bæði heimilum og fyrirtækjum.

Helstu niðustöður voru eftirfarandi:

 • Matarsóun hér á landi er sambærileg matarsóun í öðrum Evrópulöndum, bæði hvað varðar heimili og fyrirtæki.
 • Ekki er marktækur munur milli landshluta á matarsóun heimilanna.
 • Mesta matarsóun er að finna í veitingarekstri og matvælaframleiðslu.

Frétt Umhverfisstofnunar um rannsóknina má lesa hér og niðurstöður rannsóknarinnar má lesa hér.

Nýtnivikan tekin með trompi hjá Össuri

29.11.2016 11:29

Í síðustu viku var Nýtnivikan (European Week for Waste Reduction) haldin hátíðleg víðs vegar um borgina. Aðaláhersla vikunnar er að draga úr myndun úrgangs og hvetja fólk til að nýta hluti betur. Um var að ræða samevrópskt átak og fóru sum íslensk fyrirtæki ekki varhluta af þessu. Eitt af þessum fyrirtækjum var Össur en þar var ákveðið að leggja sérstaka áherslu á matarsóun. Starfsfólki var boðið upp á fræðslu um matarsóun, fræðslumyndband var frumsýnt  og alls kyns fróðleikur á veggspjöldum í matsal og vef fyrirtækisins var potað að starfsfólki svo eitthvað sé nefnt.

Veggspjöldin fékk Össur að láni hjá Umhverfisstofnun og fræðsluerindi var í höndum Rannveigar Magnúsdóttur hjá Landvernd. 

Össur leggur mikla áherslu á að senda góð skilaboð út í samfélagið en áhrif fyrirtækisins eru mikil út í samfélagið og umhverfið. Össur vinnur stöðugt að úrbótum og bættri nýtingu hráefna innan fyrirtækisins. Við viljum hrósa Össuri fyrir frábært framtak og vonum að fleiri fyrirtæki fylgi í þeirra fótspor. 

Hér má sjá myndbandið sem Össur bjó til og frumsýndi í nýtnivikunni.

Heilræði frá Leiðbeiningastöð heimilanna

25.11.2016 09:55

Leiðbeiningastöð heimilanna er umhugað um hagkvæmt heimilishald. Kvenfélagasamband Íslands sem á og rekur Leiðbeiningastöðina hefur sl. ár vakið athygli á matarsóun með öðrum samstarfsaðilum og er vefurinn www.matarsoun.is meðal annars afurð þess samstarfs. Í forrannsókn sem gerð var um matarsóun kom fram að ástæða matarsóunar reykvískra heimila sem tóku þátt var aðallega tvenns konar, annars vegar að „eldað, matreitt eða skammtað hafi verið of mikið” og hinsvegar að „matur var ekki notaður á réttum tíma“.   

Jólin 2014 var gerð rannsókn af Unilever í Bretlandi í tengslum við herferðina #ClearAPlate sem sýndi fram á að 4,2 milljón matarskömmtum hefði verið sóað í kringum jólahelgina.

Jólin eru tíminn þegar mikið er verslað og og öll viljum við bjóða fólkinu okkar upp á ljúffengar kræsingar, en oft er það þannig að afgangarnir af alltof stóra kalkúninum, eða of stóra hamborgarhryggnum enda aftarlega í ísskápnum og svo í ruslatunnunni eftir jól þegar tekið er til í ísskápnum. En með því að skipuleggja sig aðeins í innkaupum og ganga rétt frá matarafgöngum eru miklu meiri líkur á því að við hendum minna og nýtum afgangana betur. Um leið spörum við stórar upphæðir í innkaupum. 

Skipuleggið matseðilinn fyrirfram áður en verslað er. Á forsíðu þessarar síðu er að finna skammtareiknivél sem hægt er að nýta sér til að áætla betur hversu mikið þarf af mat og meðlæti fyrir hvern. Þar með er hægt að skipuleggja betur hversu mikið þarf að versla af hverju í jólamatinn. Þessi skammtareiknivél er byggð á skjalinu „Magn á mann“ sem finnst á heimasíðu Leiðbeiningastöðvarinnar. Einnig er þar að finna handhægan innkaupalista sem er hægt að bæta við eftir þörfum hvers og eins.   
  
Þessi tvö skjöl er að finna á forsíðu www.leidbeiningastod.is undir Skjöl til útprentunar
 

Verðlaun Norðurlandaráðs

23.11.2016 13:38

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2016 voru veitt í byrjun nóvember en það voru Danirnir Stian Olesen og Klaus B. Pedersen sem hlutu þau í ár fyrir smáforritið „Too Good To Go“. Dómnefndin komst að þeirri niðurstöðu að: „Forritið er nýskapandi stafræn þjónusta sem stuðlar að því á einfaldan og aðgengilegan hátt að breyta viðhorfum neytenda og verslunarrekenda til matarsóunar og auðlindanýtingar“. Í verðlaun fengu þeir 350 þúsund danskar krónur sem jafngildir um 5,6 milljónum íslenskra króna. 

Smáforritið snýst um það að einstaklingar geti keypt mat frá veitingastöðum rétt fyrir lokun á lækkuðu verði, gegn því að maturinn eða hráefnið sé sótt. Með þessu ná eigendur staðanna að græða á vöru sem annars færi í ruslið í lok dags. Bæði neytendur og eigendur veitingastaða græða á þessu fyrirkomulagi og komið er í veg fyrir matarsóun að einhverju eða öllu leyti. Neytendur hreinlega skrá sig inn í forritið, velja sér veitingastað, borga og sækja vöruna. Notendur smáforritsins hafa einnig þann valmöguleika að styrkja, með frjálsum framlögum, einstaklinga sem ekki hafa efni á því að kaupa sér mat í hvert skipti sem þeir notast við forritið.  


Enn sem komið er þá er smáforritið einungis virkt í Bretlandi og Danmörku en stækkanir eru í vændum á næstum misserum. Vonandi ratar þetta fljótlega á íslenskan markað!

Hér má lesa frekar um smáforritið.
http://toogoodtogo.dk/

 

Málþing: Umbúðir - Hvenær nauðsyn og hvenær sóun?

21.11.2016 14:13

Málþing á vegum Umhverfisstofnunar og Reykjavíkurborgar sem ber yfirskriftina Umbúðir – hvenær nauðsyn og hvenær sóun verður haldið næstkomandi fimmtudag þann 24. nóvember milli klukkan 8:30 – 12:00. Boðið verður upp á kaffi og vörukynningu á umhverfisvænum umbúðum. Aðgangur er ókeypis og hvetjum við sem flesta til þess að mæta. Biðjum við fólk um að skrá sig á viðburðinn svo hægt sé að áætla fjölda og draga úr matarsóun.

 

Dagskráin er eftirfarandi:

 Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, flytur ávarp

Umbúðir og umhverfið

Kristín Linda Árnadóttir frá Umhverfisstofnun

Hlutverk umbúða og leiðir til að lágmarka notkun

Bryndís Skúladóttir frá Samtökum iðnaðarins

Hlutverk og vald sveitarfélaga í að draga úr umbúðaaustri

Eygerður Margrétardóttir frá Reykjavíkurborg

Örkynningar á umhverfisvænni umbúðum

Fulltrúar framleiðenda og innflytjenda

- Kaffi og vörukynningar -

Efni, umbúðir, samhengi

Garðar Eyjólfsson frá Listaháskóla Íslands

Umbúðir og matvæli

Óskar Ísfeld frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur

Umbúðanotkun hjá veitingasölum

Sæunn Ingibjörg Marínósdóttir frá Gló og Rakel Eva Sævarsdóttir frá Borðinu

Fundarstjóri verður Guðfinnur Sigurvinsson, upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar


"Taktu Leif Arnar heim!"

08.11.2016 11:42

Ný herferð á vegum Vistorku undir heitinu Leifur Arnar býður almenningi upp á að taka leifarnar eða Leif Arnar með sér heim. Herferðin ber yfirskriftina "Taktu Leif Arnar heim!" og er markmiðið að minnka matarsóun. Verkefnið felur í sér annars vegar að bjóða upp á vistvænt box fyrir leifarnar og hins vegar heildarvottun fyrir veitingastaði sem bjóða upp á boxið. Algengt er að veitingastaðir erlendis, þá sérstaklega í Bandaríkjunum, bjóði upp á svokallaða "doggy bags" fyrir matarafganga á veitingastöðum. Leifur Arnar slær þó tvær flugur í einu höggi með því bæði að sporna gegn matarsóun en einnig bjóða upp á vistvænt box úr sykurreyr sem brotnar niður í náttúrunni. Mikla matarsóun má rekja til matarafganga á veitingastöðum sem enda venjulega í ruslinu. Þar með er bæði góðu hráefni og peningum sóað.

Bautinn á Akureyri er fyrsta veitingahúsið til að taka þátt í herferðinni og bjóða upp á Leif Arnar. Til að hvetja þá enn frekar í þessu fyrsta skrefi í átt að umhverfisvænni veitingahúsareksturs, þá hefur Vistorka ákveðið að gefa þeim fyrstu 1.000 boxin. Vonandi fylgja önnur veitingahús sem fyrst í kjölfarið! 

Horfðu hér á frétt RÚV um Leif Arnar.

Fjallað um matarsóun á Matvæladegi

28.10.2016 13:52

Á Matvæladegi Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands á Hótel Natura 20. október flutti Bryndís Skúladóttir, forstöðumaður framleiðslu- og matvælasviðs SI, erindi um matvæli og umhverfismál. Í erindi sínu sagði hún frá því hvernig verkefni fyrirtækja í umhverfismálum hafa færst frá því að snúast um að hreinsa það sem fer frá fyrirtækjum yfir í að lágmarka sóun í vinnslunni sjálfri og virðiskeðju. Samkvæmt könnun Hagstofunnar huga matvælafyrirtæki að umhverfismálum, en um 60% fyrirtækja svara því til að nýsköpun á árunum 2012-2014 hafi skilað umhverfislegum ávinningi fyrir fyrirtækin. Bæði er unnið að því að minnka efnis- og orkunotkun en einnig að finna nýtingu á hráefnum sem áður var hent.

Bryndís fjallaði einnig um matarsóun og hvernig nýjasta tækni bætir vinnsluferla þannig að allt nýtist. Með öflugri greiningum og hugbúnaði má bæta áætlanir fyrir framleiðslu og sölu og minnka líkur á að vörur dagi uppi á lagerum. Umbúðir eru mikilvægar til að tryggja öryggi matvæla og minnka skemmdir í flutningum. Réttar umbúðir geta einnig lengt líftíma matvæla og minnkað líkur á að þeim verði hent.

Á Hringbraut er hægt að horfa á viðtal Lindu Blöndal við Bryndísi. Viðtalið við Bryndísi hefst á 15. mínútu.

Nýjar afurðir verða til úr íslenskum gulrófum

24.10.2016 13:00

Samtök iðnaðarins tóku þátt í verkefninu „Hönnun í framleiðslu – nýting hönnunar við nýsköpun og vöruþróun framleiðslufyrirtækja“ en markmið verkefnisins var að nota hönnun við framleiðslu á fullunnum iðnaðarvörum úr vannýttu hráefni og draga þar með úr matarsóun. Íslenskar gulrófur urðu fyrir valinu sem hráefni. Hér á landi eru 700-1.200 tonn af gulrófum framleidd árlega en um 20% eru ósöluhæf og illnýtanleg af ýmsum ástæðum. Verkefnið fólst í því að nýta þessar illseljanlegu rófur í áhugaverðar afurðir.

Búi Bjarmar Aðalsteinsson, hönnuður, stýrði verkefninu í samstarfi við fleiri hönnuði og framleiðslufyrirtæki. Afraksturinn varð gulrófusíróp, gulrófusvaladrykkir og gulrófuvodki sem hafa nú þegar vakið athygli matreiðslumanna sem áhugaverð hráefni í íslenska matreiðslu. Afurðirnar voru kynntar á viðburðinum „Matur og nýsköpun“ sem haldinn var í Íslenska sjávarklasanum.

Þegar Búi er spurður af hverju íslenskar gulrófur hafi orðið fyrir valinu svarar hann því til að við upphaf verkefnisins hafi íslenskt grænmeti verið kortlagt. „Í kortlagningunni var litið til fjölbreytileika íslenskrar grænmetisframleiðslu, stærðar hverrar ræktunar fyrir sig, magn afgangsafurða og möguleika til fullvinnslu innan Íslands. Það er greinilegt að það eru fjölmörg sóknarfæri þegar kemur að íslensku grænmeti. Gulrófurnar skáru sig úr  vegna þess magns sem þarf að farga vegna útlits og stærðarviðmiða auk þess eru margir gulrófubændur aðeins að nýta hluta ræktanlegs lands sem sýnir að vaxtarmöguleikar eru miklir.“

En hvað ætli hafi komið mest á óvart í ferlinu? „Viðmót og áhugi innan matvælageirans kom mér mikið á óvart. Stórir og smáir framleiðendur, stofnanir og bændur tóku okkur opnum örmum og fögnuðu frumkvæði að aukinni nýsköpun. Það er mjög hvetjandi að fá slík viðbrögð og ekki alltaf sem nýsköpun er mætt af svo miklum skilningi. Samtök iðnaðarins áttu þar stóran hlut og veittu verkefninu brautargengi með sinni aðkomu. Aðrir sem eiga sérstakt hrós skilið eru Ölgerð Egils Skallagrímssonar, Guðni í Þórisholti, Sölufélag garðyrkjumanna, Foss Distillery og Matís.“

Búi segir að næstu skref séu áframhaldandi þróunarvinna og fjármögnun verkefnisins. „Vinnsla á gulrófusírópinu hefur gengið vonum framar og hefur nú þegar verið notað af nokkrum veitingahúsum. Vinnsla á áfengi er enn í þróun en ef allt gengur eftir vonumst við til að koma vörum á almennan neytendamarkað á næsta ári.“ 

Umhverfissýningin Saman gegn sóun

19.10.2016 09:43

Föstudaginn og laugardaginn 9. - 10. september síðastlinn var haldin umhverfissýningin Saman gegn sóun í Perlunni. Fyrirtæki og opinberir aðilar kynntu þar nýjar leiðir í umhverfismálum og hvernig megi draga úr sóun. Sýningin var opin almenningi og var aðsókn mjög góð. Greinilegt er að vakning er í samfélaginu fyrir umhverfismálum og mikill vilji til að gera betur.

Þó nokkrir samstarfsaðilar að þessari síðu tóku þátt í sýningunni. Umhverfisstofnun, Landvernd og Kvenfélagasamband Íslands voru með sýningarbása sem sýndu m.a. hversu mikil sóun á sér stað og hvernig megi minnka þessa sóun. Í bás Umhverfisstofnunar var lögð sérstök áhersla á sóun matvæla, plasts og textíls, í samræmi við stefnu umhverfis- og auðlindaráðuneytis um úrgangsforvarnir. Í samstarfi við nema úr Listaháskóla Íslands var matarsóun á Íslandi sýnd sjónrænt. 

Björn Sigríðarson Traustason, nemi í LHÍ, tók myndir á sýningunni en fleiri myndir má sjá á nýrri facebook hliðstæðu matarsóun.is.

Ný myndbönd, uppskriftir og góð ráð

13.10.2016 09:09

Heilan helling af nýju efni má finna á heimasíðunni okkar undir hnappinum "Uppskriftir og myndbönd".

Dóra Svavarsdóttir hefur haldið námskeiðin "Eldað úr öllu". Hún deilir með okkur uppskriftum sínum og ráðum um hvernig megi nýta mat betur og draga úr matarsóun. Þetta verkefni var unnið í samstarfi Landverndar, Kvenfélagasambands Íslands og Vakandi í Zero Waste verkefninu, sem styrkt var af Norrænu ráðherranefndinni. Lagið "Sóa" með AmabAdamA má heyra í myndböndunum en lagið var samið til að vekja athygli á matarsóun. 

Undir sama hnappi, "Uppskriftir og myndbönd", má finna ráð Selinu Juul um hvernig megi minnka matarsóun. Selina Juul hefur leitt baráttu Dana gegn matarsóun og er stofnandi samtakanna Stöðvum matarsóun (Stop spild av mad). Samtökin eru stærstu óháðu samtök Danmerksur sem vinna gegn matarsóun. 

Nýjar norrænar skýrslur um matarsóun

10.10.2016 17:21

Þrjár skýrslur sem tengjast matarsóun hafa komið út á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar á árinu. Ein þeirra fjallar um matarsóun og umbúðamerkingar og hefur þegar verið birt hér á vefnum. Hinar tvær fjalla annars vegar um tap og sóun í frumframleiðslu matvæla (Food losses and waste in primary production) og hins vegar um hvernig draga má úr matarsóun með því að úthluta matvælum til þeirra sem þurfa á honum að halda (Food Redistribution in the Nordic Region).

Saman gegn sóun - haustráðstefna og umhverfissýning

07.09.2016 08:28

Næstkomandi föstudag, 9. september, verður haldin haustráðstefna FENÚR (Fagráð um endurnýtingu og úrgang) undir yfirskriftinni Saman gegn sóun. Ýmis erindi er varða umhverfið og þá sérstaklega úrgangsmál eru á dagskrá. Ráðstefnan fer fram á veitingastaðnum Nauthól og hægt er að skrá sig á fenur@fenur.is 

Í kjölfar ráðstefnu verður opnuð umhverfissýning í Perlunni. Fyrirtæki og opinberir aðilar munu kynna nýjar leiðir í umhverfismálum og hvernig megi draga úr sóun. Á sýningunni verður eitthvað fyrir alla, m.a. hægt að taka þátt í ratleik, læra allt um flokkun, gramsa í gefins bókum, skoða trjátætara, ruslabíla og margt fleira skemmtilegt. Sýningin er opin öllum og FRÍTT inn. 

 

Sýningin í Perlunni:

Föstudagur 9. september: 14:00 - 18:00

Laugardagur 10. september: 12:00 - 17:30

Ný rannsókn um matarsóun og merkingar matvæla

01.09.2016 16:09

Norræna ráðherranefndin hefur gefið út nýja skýrslu um hvernig hægt er að sporna gegn matarsóun án þess að minnka öryggi matvæla. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvernig regluverk um merkingu matvæla er túlkað í Norðurlöndunum og hver tengslin eru á milli matarsóunar og merkingu matvæla. Einnig var skoðað hvað hefði helst áhrif á geymsluþol matvæla. 

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að hitastig og hvernig matvælin er innpökkuð hefur mikil áhrif á geymsluþolið. Sýnt er fram á þörf fyrir fræðslu til almennings um geymslu matvæla og hvenær þau teljast hæf til neyslu. Lagt er til aukinnar fræðslu til bæði framleiðenda og neytenda á því hvernig sé hægt auka geymsluþol matvæla. 

Hægt er að nálgast skýrsluna hér

 

 

Nýtt danskt fræðslusetur um matarsóun

09.08.2016 16:02

Frjálsu félagasamtökin "Stop spild af mad" hafa opnað nýtt fræðslusetur um matarsóun, "Nationalt Videncenter om Madspild". Þar er að finna ýmsan fróðleik um matarsóun, bæði innlendan og erlendan. Markmið síðunnar er að gera upplýsingar um matarsóun aðgengilegri almenningi. Danir hafa verið leiðandi í baráttunni gegn matarsóun undanfarin ár. Á síðunni er því að finna upplýsingar um hinar ýmsar herferðir sem eru eða hafa verið í gangi á mismunandi stigum virðiskeðju framleiddra matvæla. Einnig er að finna ýmis gagnleg ráð um hvernig megi sporna gegn matarsóun. Því er þessi síða að vissu leyti dönsk hliðstæðu þessarar síðu, matarsóun.is, enda lénið í takt við það, madspild.dk.

Meiri matarsóun í Evrópu en áætlað

25.04.2016 10:20

Ný gögn um matarsóun í Evrópu sýna að hver Evrópubúi hendi að meðallagi um 173 kg af mat á ári sem er mun meira en áætlað var. Samanlagt er um 88 milljónum tonna af mat hent árlega að andvirði um 143 milljarða evra. Þetta þýðir að um 20% af þeim mat sem er framleiddur innan Evrópu endar í ruslinu. Stærstu úrgangshafarnir eru heimilin sem sóa um 47 milljónum tonna af mat á ári hverju. Þessar niðurstöður og meira um matarsóun í Evrópu má lesa í þessari skýrslu

Rannsóknin sýnir einnig að einungis fjórðungur landa innan Evrópusambandsins hafa áreiðanleg gögn um matarsóun og magn matarúrgangs í sínu landi. Því er nauðsynlegt að auka verulega gagnsöfnun um matarsóun eins og rannsókn Umhverfisstofnunar á umfangi matarsóunar á Íslandi mun gera. Auk þess er markmið þessa verkefnis að staðla gagnasöfnun tengd matarsóun og því finnast ýmsar leiðbeiningar um hvernig ber að haga sér við þvílíka gagnasöfnun í skýrslunni. Þessi gögn voru unnin sem hluti af FUSIONS verkefninu (Food Use for Social Innovation by Optimizing Waste Prevention Strategies) sem er samstarfsverkefni styrkt af Evrópusambandi með það að markmiði að sporna gegn matarsóun. Verkefnið er samstarfsverkefni 21 aðila í 13 mismunandi löndum innan Evrópu og fellur undir 7. rammaáætlun Evrópusambandsins um rannsóknir og nýsköpun. Nú þegar hafa yfir 200 evrópsk samtök lýst yfir stuðningi sínum á þessu verkefni og aðgerðum gegn matarsóun.

Saman gegn sóun

15.04.2016 12:07

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið boðaði til blaðamannafundar þar sem Saman gegn sóun – stefna um úrgangsforvarnir 2016 – 2027 var kynnt og þessi nýja vefgátt um matarsóun var opnuð.

Helstu markmið stefnunnar eru að draga úr myndun úrgangs m.a. með því að bæta nýtingu auðlinda. Áhersla er lögð á fræðslu til að koma í veg fyrir myndun úrgangs og þar með þróa samfélag sem hefur skilvirka auðlindanýtingu í fyrirrúmi. Tilgangur stefnunnar er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, draga úr hráefnisnotkun og minnka dreifingu á efnum sem eru skaðleg heilsu og umhverfi. Í stefnunni eru níu áhersluflokkar sem verða í forgangi á gildistíma stefnunnar, þ.e. matvæli, plast, textíll, raftæki, grænar byggingar, pappír, aukaafurðir frá vinnslu kjöts og fisks, drykkjarvöruumbúðir og draga úr myndun úrgangs frá stóriðju. Fyrstu tvö ár stefnunnar verður áhersla lögð á úrgangsforvarnir gegn matarsóun. Stefnuna má lesa hér.

Vefgátt um matarsóun er eitt af þeim verkefnum sem falla undir þessa stefnu um úrgangsforvarnir. Tilgangur þessarar vefgáttar er að fræða almenning um matarsóun og þar með ýta undir vitundarvakningu um matarsóun. Hér er að finna upplýsingar og leiðbeiningar um matarsóun og leiðir til að sporna gegn henni. Ýmislegt hagnýtt er að finna á síðunni, m.a. skammtareiknivél, uppskriftavef og ýmis húsráð gegn matarsóun. Einnig er að finna upplýsingar um matarsóun á Íslandi og verkefni tengd því. Fulltrúar frá Umhverfisstofnun, Landvernd, Kvenfélagasambandi Íslands, Matvælastofnun, Umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Samtökum iðnaðarins, Vakandi – samtök gegn matarsóun, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum ferðaþjónustunnar, Bændasamtökum Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga mynda samstarfshóp um vefsíðuna.

Vinningshafar fundnir í "Baráttan gegn matarsóun"

15.04.2016 11:54

6. bekkur Hofstaðaskóla bar sigur úr býtum í Baráttunni gegn matarsóun á Íslandi. Verkefnið fól í sér að vigta matarsóun bekkjarins á hverjum degi í eina kennsluviku og skrá það inn á námsgátt Sambands Norrænu félaganna, www.nordeniskolen.org. Þar gátu kennarar nálgast ókeypis kennsluefni tengt verkefninu með það að leiðarljósi að minnka matarsóun. Þar með kynnast nemendur sjálfbærari lífstíl og læra að nýta betur auðlindir okkar og hráefni. Nemendur 6. bekkjar Hofstaðaskóla sögðu að matarsóun hefði minnkað hjá þeim í kjölfar verkefnisins og að nú séu þau meðvitaðri um matarsóun.

Yfir 400 kennarar á Norðurlöndunum tóku þátt í verkefninu og nýttu sér fræðsluefnið á samnorrænu námsgáttinni. Því er fjöldi nemanda betur upplýstur um matarsóun og vandamál tengd því. Verkefnið hefur sannreynt að um fimmta hverjum nestispakka eða skólamáltíð er hent í skólum á Norðurlöndum. Því á sér stað gífurleg matarsóun í skólum og mikilvægt að gera matarsóunarvandann áþreifanlegan fyrir nemendur líkt og gert var í Baráttunni gegn matarsóun.

5.800 tonnum af mat og drykk sóað á reykvískum heimilum árlega

27.11.2015 15:13

Umhverfisverndarsamtökin Landvernd stóð að forrannsókn á matarsóun á sautján heimilum í Reykjavík. Tilgangur þessarar forrannsóknar var að fá vísbendingar um umfang matarsóunar á reykvískum heimilum og prufukeyra hérlendis þær aðferðir sem nú þegar eru notaðar til að mæla matarsóun annars staðar í heiminum. Lagðir voru fyrir tveir spurningalistar varðandi hegðun og viðhorf gagnvart matarsóun og skráðu þátttakendur niður allan mat og drykk sem var hent yfir viku tímabil í matardagbók. Mælingar tóku eingöngu til matarsóunar inni á heimilum, ekki þess matar sem heimilisfólk sóar utan þess. Rannsóknin bendir til þess að a.m.k. 5.800 tonnum af mat og drykk sé hent af reykvískum heimilum árlega. Þetta samsvarar a.m.k. 4,5 milljörðum króna. Hver einstaklingur í rannsókninni hendir um 48 kg á ári sem gerir um 150 þúsund krónur fyrir fjögurra manna fjölskyldur. Sú upphæð dugir fyrir einu kílói af lamgakótilettum og léttu meðlæti í hverri viku. Ef dregið yrði úr matarsóun um 20% væri 1.150 tonnum minna hent af mat sem þýddi um 900 milljóna sparnað fyrir íbúa Reykjavíkur í heild sinni. Tæplega 18,5 milljóna króna sparnaður yrði vegna gjalda fyrir meðhöndlun úrgangs.

 

Ástæða matarsóunar reykvísku heimilanna var aðallega tvenns konar, annars vegar að "eldað, matreitt eða skammtað hafi verið of mikið" (46%) og hins vegar að "matur var ekki notaður á réttum tíma" (44%). Peningasparnaður var sterkasti hvatinn til að minnka matarsóun hjá þátttakendum en samviskubit, skilvirkni, umhverfisáhrif og fæðuskortur annars staðar í heiminum voru einnig sterkir hvatar. Eftir að matardagbókinni var lokið sögðu nær allir þátttakendur að þeir myndu héðan í frá leggja sig fram við að minnka magn þess matar sem er hent af heimilum þeirra. 

 

Rannsakendur telja mat þessarar forrannsóknar varfærið og að matarsóun kunni að vera enn meiri, en frekari rannsóknir vanti. Viðameiri rannsókn er nauðsynleg til að fá gleggri mynd af matarsóun íslendinga. Ljóst er að niðurstöður forrannsóknarinnar nýtast fyrir slíka vinnu og gefa jafnframt mikilvægar vísbendingar um hvernig megi best nálgast aðgerðir gegn matarsóun. Landvernd vann þessa forrannsókn í samstarfi við Reykjavíkurborg og fyrir tilstilli verðlaunafés sem Reykjavíkurborg tók við þegar hún fékk Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.

Skýrsluna er að finna hér

Frétt Landverndar um forrannsóknina er að finna hér

Starfshópur um matarsóun mótar tillögur til úrbóta og verkefni gegn matarsóun sett í framkvæmd

22.04.2015 14:46

Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði haustið 2014 starfshóp um matarsóun sem hafði það hlutverk að móta tillögur um hvernig sporna mætti við matarsóun á Íslandi. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið stýrði starfshópnum sem samanstóð af fulltrúum Umhverfisstofnunar, Landverndar, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu, Vakandi – samtaka gegn sóun matvæla, Bændasamtaka Íslands, Matvælastofnunar, Kvenfélagssambands Íslands, Samtaka ferðaþjónustunnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. 


Starfshópurinn skilaði ráðherra skýrslu um tillögur til úrbóta vorið 2015. Í skýrslunni voru lagðar fram tillögur að rannsóknum á matarsóun á Íslandi, fræðslu til neytenda og vitundarvakningu, geymslu og merkingu matvæla, framleiðslu, dreifingu og sölu matvæla og matarsóun í stóreldhúsum, veitingahúsum og mötuneytum. Skýrsluna má lesa hér 


Sumar af þessum tillögum hefur þegar verið hrint í framkvæmd. Má þar helst nefna verkefni tengd vitundarvakningu um matarsóun og fræðslu almennings. Þessi vefsíða er einmitt eitt af þessum verkefnum. Önnur verkefni eru m.a. spurningakönnun um viðhorf Íslendinga til matarsóunar, fræðsla um geymsluþolsmerkingar og geymsluaðferðir matvæla og aukin fræðsla um matarsóun í skólum.