Tillögur um aðgerðir gegn matarsóun

25.06.2020 11:12

Nú hefur starfshópur skipaður fulltrúum úr allri virðiskeðju matvæla, allt frá ræktun til framleiðslu og neyslu, skilað tillögum að aðgerðaáætlun gegn matarsóun til Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra. Skýrslan verður í almennri kynningu í samráðsgátt stjórnvalda til 31. júlí næstkomandi.

Í skýrslunni eru lagðar til 24 tillögur, annars vegar 14 aðgerðir sem stjórnvöld bera ábyrgð á að komist til framkvæmdar og hins vegar 10 aðgerðir á ábyrgð atvinnulífsins.
Nokkur dæmi um tillögur eru:

🍎 Að draga úr matarsóun um 50% fyrir árið 2030
🍎 Samdráttur um 30% fyrir 2025
🍎 Auka stuðning við nýsköpun
🍎 Átak í menntun og fræðslu
🍎 Innleiða hagræna hvata
🍎 Endurskoða regluverk
🍎 Árlegar mælingar á umfangi matarsóunar
🍎 Auka matargjafir

Starfshópurinn beinir sjónum sínum að öllum hliðum matarsóunar, en hún getur orðið hvenær sem er í ferlinu, allt frá ræktun til framleiðslu og neyslu. Lögð er áhersla á að til að ná árangri í að draga úr matarsóun þurfi samstillt átak samfélagsins alls, þ.e. atvinnulífsins, almennings og stjórnvalda. Áhersla er m.a. á að atvinnulífið setji málefnið í forgang og taki frumkvæði að aðgerðum innan sinna vébanda, stuðli að upplýsingaskiptum, fræðslu og hvatningu.

Tillögur starfshóps um aðgerðir gegn matarsóun í samráðsgátt stjórnvalda.

Starfshópurinn ásamt ráðherra

Frá vinstri á mynd: Hildur Harðardóttir f.h. Umhverfisstofnunar; Vigdís Ólafsdóttir f.h. Landssamtaka íslenskra stúdenta, Sambandi íslenskra framhaldsnema, Stúdentaráðs Íslands og Ungra umhverfissinna; Rakel Garðarsdóttir f.h. umhverfisverndarsamtaka; Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra; Guðmundur B. Ingvarsson stýrði starfshópnum f.h. umhverfis– og auðlindaráðuneytisins; Steinþór Skúlason og Gréta María Grétarsdóttir f.h. Samtaka atvinnulífsins; Dóra Svavarsdóttir f.h. Neytendasamtakanna; Tjörvi Bjarnason f.h. Bændasamtaka Íslands; og Birgir Örn Smárason f.h. Matís ohf. Á myndina vantar Eygerði Margrétardóttur f.h. Sambands íslenskra sveitarfélaga.  

Hver Íslendingur sóar 90 kg af mat árlega

02.04.2020 09:05

Matarsóun er umfangsmikið vandamál sem snýr ekki aðeins að sóun matvæla heldur einnig sóun á fjármunum og sóun á auðlindum jarðar. Það sýnir umfang vandans að Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur áætlað að um þriðjungi framleiddra matvæla sé sóað.

Áreiðanleg gögn og rannsóknir eru lykilþáttur í mótvægisaðgerðum. Á síðastliðnu ári framkvæmdi Umhverfisstofnun ítarlega rannsókn á umfangi matarsóunar á Íslandi, þar sem 90 heimili og 80 fyrirtæki tóku þátt. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknarinnar  má áætla að hver einstaklingur sói að meðaltali um 90 kg af mat árlega. Matarsóun íslenskra heimila er samkvæmt þessu sambærileg því sem þekkist í öðrum Evrópulöndum. 

Tafla 1. Samantekt niðurstaðna á umfangi matarsóunar heimila 2019

Tegund matarsóunar Sóun á mann á dag Sóun á mann á viku Sóun á mann á ári (kg) Heildarsóun á Íslandi á ári 
(tonn)
Nýtanlegur matur 54,0 g 377,8 g 19,7 7152
Ónýtanlegur úrgangur 68,3 g 481,8 g 25,1 9123
Matarolía 0,1 dl 1,0 dl 5,1 1840
Vökvi 1,1 dl 7,7 dl 40,4 14670
Samtals 90,3 32785

Íslensk heimili hentu að meðaltali um 20 kg af nýtanlegum mat á ári, 25 kg af ónýtanlegum matarafgöngum, 40 lítrum af drykkjum og 5 kg af matarolíu og fitu á hvern fjölskyldumeðlim. Með öðrum orðum er áætlað að íslensk heimili hendi samtals 7.152 tonnum af nýtanlegum mat á ári hverju, um 9.130 tonnum af ónýtanlegum matarafgöngum, 14.670 tonnum af drykkjum og 1.840 tonnum af matarolíu og fitu. Sambærileg rannsókn var framkvæmd af Umhverfisstofnun árið 2016 og fannst ekki tölfræðilega marktækur munur á sóun milli tímabilanna tveggja. 

Niðurstöður fyrirtækjarannsóknarinnar benda til að ríflega 22 kg af nýtanlegum mat, 3,6 kg af ónýtanlegum mat, 14,6 lítrum af drykkjum og 1,6 kg af olíu og fitu sé sóað á hvern íbúa árlega. Dræm þátttaka framleiðslufyrirtækja í rannsókninni gerir það þó að verkum að niðurstöðurnar endurspegla bara neysluhlekk matvælakeðjunnar, þ.e.a.s. heild- og smásölu, veitingasölu og spítala og hjúkrunarheimili.  

Vesturlönd veita matarsóun sífellt meiri athygli, ekki síst vegna umtalsverðrar losunar gróðurhúsalofttegunda. Enn sem komið er liggja ekki fyrir staðlaðar aðferðir við rannsóknir á matarsóun, en eitt framlag rannsóknarskýrslu Umhverfisstofnunar var að koma með tillögur til Hagstofu Evrópusambandsins að stöðluðum aðferðum við rannsóknir á matarsóun.  
 

Tafla 2. Samanburður á matarsóun innan mismunandi hlekkja virðiskeðjunnar, á mann á ári og heildarsóun á Íslandi á ári, árið 2019 

Tegund sóunar

Heild- og smásala

Veitingasala

Spítalar og hjúkrunarheimili

Neysluhlekkurinn án heimila

Neysluhlekkurinn með heimilum

Á mann (kg)

Heildar-sóun (tonn)

Á mann (kg)

Heildar-sóun (tonn)

Á mann (kg)

Heildar-sóun (tonn)

Á mann (kg)

Heildar-sóun (tonn)

Á mann (kg)

Heildar-sóun (tonn)

Nýtanlegur matur

3,2

1173

17,5

6343

0,7

243

22,4

8110

42,1

15263

Ónýtanlegur úrgangur

2,9

1042

1,1

413

0,3

118

3,6

1320

28,8

10442

Vökvi

0,3

108

10,9

3962

0,2

84

14,6

5310

55,1

19980

Matarolía

0,3

96

1,5

548

0,0

18

1,6

570

6,6

2410

Samtals

6,7

2419

31,0

11265

1,3

463

42,2

15310

132,5

48095

Sjá skýrslu hér.

 

Umfangsmikil matarsóunarrannsókn að hefjast

21.08.2019 13:52

Umhverfisstofnun hefur afráðið að hrinda af stað ítarlegri rannsókn á umfangi matarsóunar á Íslandi árið 2019.

Í lok vikunnar verður byrjað að hringja út til ríflega 1.000 heimila sem lenda í slembiúrtaki og heimilisfólk beðið að taka þátt í rannsókninni. Þátttakendur verða beðnir að vigta mat og matarúrgang sem fer til spillis á heimilinu í eina viku og skrá inn í gagnagátt sem vistuð er á heimasíðu Umhverfisstofnunar.  Síðar verður hringt í fyrirtæki, einnig skv. slembivali. Gallup sér um úthringingarnar.

Umhverfisstofnun vonar að sem flestir sjái sér þess kost að taka þátt í rannsókninni, því góð þátttaka er forsenda þess að áræðanlegar upplýsingar fáist um umfang matarsóunar hér á landi. Geta má þess að Umhverfisstofnun stóð fyrir sambærilegri rannsókn árið 2016.

Matarsóunarrannsóknin er gerð með styrk frá Evrópsku hagstofunni (EUROSTAT). Tilgangurinn er að afla hagtalna um umfang matarsóunar á Íslandi.

Umsjónarmaður rannsóknarinnar er Margrét Einarsdóttir, sérfræðingur á sviði loftlagsmála og græns samfélags. margret.einarsdottir@umhverfisstofnun.is

Óhóf 2018

04.01.2019 15:38

Óhóf, sem er hugvekja í nafni matarsóunar, var haldið í annað sinn þann 5. desember síðast liðinn og var þar boðið upp á veitingar sem eiga það sameiginlegt að vera góð nýting á matvælum og jafnframt uppspretta hugmynda að því hvernig veislumatur getur allt eins verið úr afgöngum, útlitsgölluðum mat eða einhverju sem er jafnan ekki nýtt. Gestir voru einnig hvattir til þess að horfa inn á við og skoða hvað hver og einn getur gert til þess að draga úr sinni matarsóun. 

Líkt og í fyrra, fengu Umhverfistofnun og samtökin Vakandi með sér einvalalið í skiplagningu viðburðarins. Í skipulagshópnum voru Gísli Matt matreiðslumeistari, Loft HI hostel, Björn Steinar Blumenstein og Ljótu kartöflurnar. Sigga Dögg kynfræðingur hélt matarsóunarhugvekju og Amabadama steig á stokk – en hljómsveitin hefur lengi látið sig umhverfismál varða.

Veitingarnar slógu í gegn enda hefur Gísli Matt mikla ástríðu fyrir íslenskum matvælum og er snillingur í að nýta hráefni sem aðrir líta framhjá. Matseðillinn sem Gísli bauð uppá var því ævintýralegur og hlaut mikið lof gesta. Gísli rekur veitingastaðina Slippinn, sem er í Vestmannaeyjum, og Skál! í Hlemm Mathöll.

Rakel Garðarsdóttir bauð upp á smakk af Toast Ale, fyrsta íslenska bjórnum sem vinnur gegn matarsóun. En Toast Ale er unninn úr brauði í samvinnu við Mylluna og er nýkominn á markað hérlendis.

Vöruhönnuðurinn Björn Steinar Blumenstein bauð upp á smakk af vodka. Verkefnið hans ber nafnið Catch of the day og berst gegn matarsóun, með einni vodka flösku í einu. En hann er með ávaxtavodka í þróun - sem er bæði umhverfisvænn og bragðgóður!

Því miður er staðreyndin sú að einum þriðja af framleiddum mat í heiminum er sóað, á meðan líða 821 milljónir manna fyrir matarskort. Hver Íslendingur hendir 60 kg af mat á ári. Og því miður bendir nýleg könnun til þess að þó svo að umræðan í íslensku samfélagi hafi aukist um þessi mál, þá virðast heimilin enn vera að henda jafn miklum mat. Því er enn mikil þörf á vitundarvakningu um matarsóun og umhverfisáhrif hennar.

Stefnt er á að endurtaka leikinn 2019.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, smakkar á kræsingunum. 

Gísli Matt matreiðslumeistari og stjórnarmeðlimur Slow Food Reykjavík sá um veitingarnar, en réttir hans sýndu fram á hvernig listilega má bera fram vannýtt íslensk hráefni.

Rakel Garðars býður Sölku Sól upp á Toast Ale, sem heldur betur sló í gegn!

 

 

 

 

 

 

 

Þjóðlegir réttir á okkar veg – ertu með?

23.04.2018 17:03

Matarauður Íslands og Hótel- og matvælaskólinn efna til hugmynda- og uppskriftasamkeppni um þjóðlega rétti við þjóðvegina okkar. Kannski verður þín hugmynd á matseðli veitingarstaða hringinn í kringum landið?

Það getur verið erfiðleikum bundið að skilgreina hvað sé þjóðlegur matur. Vissulega getum við leitað til hefðanna og sagt sem svo: Þetta er þjóðlegt, þetta er íslenskt. Það er hins vegar hluti þess að lifa í samfélagi að taka hlutina til endurskoðunar öðru hverju og þróa í takt við tíðarandann.

Tökum höndum saman og tengjum umræður næstu daga við  íslenskt hráefni og matarmenningu. Deilum matarminningum með hvert öðru og sjáum hvaða hugmyndir þjóðin kemur með.

Það má senda inn hefðbundnar og óhefðbundar hugmyndir, í gömlum eða nýjum búningi. Okkar skilningur er þó að þjóðlegir réttir spretta alltaf upp úr íslensku hráefni. Sérstaklega verður tekið tillit til þess ef saga á bak við réttinn fylgir með.

Hótel- og matvælaskólinn eldar og reiðir fram 15 valda rétti úr innsendum hugmyndum fyrir dómnefnd. Fimm réttir standa síðan upp úr sem vinningsréttir. Veitingahús í kringum landið í samstarfi við okkur, velja einn af þeim 15 réttum sem komast í undanúrslit, á matseðilinn sinn í sumar.

Keppnin stendur til 1.mai næstkomandi. Hægt er að lesa nánar um samkeppnina og skrá  hugmynd eða uppskrift á www.mataraudur.is. Úrval uppskrifta og hugmynda verða birtar á vef Matarauðs Íslands 11. maí og þar verður hægt að líka við hugmyndirnar og deila á samfélagsmiðlum. #þjóðlegirréttir

Samhliða þessu átaki bjóðum við fólki að skrá matarminningar sínar og hægt er að gera það á mataraudur.is

Nánari upplýsingar gefa
Brynja Laxdal verkefnastjóri Matarauðs Íslands sími 8601969 eða
brynja.laxdal@anr.is

Sigurður Daði Friðriksson fagstjóri matreiðslu við Hótel- og matvælaskólann sími 8220662 eða sigurdur.dadi.fridriksson@mk.is

Ísland keppti í Ecotrophelia í London

24.11.2017 12:38

Ecotrophelia  keppnin var haldin í London þann 21. og 22. nóvember síðastliðinn. Keppnin hvetur til nýsköpunar og tengir saman nemendur, kennara, vísindamenn og sérfræðinga í matvælageiranum, með það í huga að finna umhverfisvænar lausnir í matvælaframleiðslu. Fyrir fagfólk matvælaiðnaðarins er keppnin dýrmæt uppspretta hæfileikaríks fólks, hugmynda og nýsköpunar.

Í ár tóku matvörur frá 16 löndum þátt. Vörurnar eiga flestar sameiginlegt að vera búnar til úr aukaafurðum, afurðum sem annars væru ekki nýttar og myndu enda í ruslinu. Alls kyns sniðugar hugmyndir komu fram en sigurvegari keppninnar í ár kom frá Grikklandi. Sigurvaran er drykkur sem inniheldur mysu frá jógúrtframleiðslu. Mikið magn þessarar aukaafurðar fer til spillis í mjólkuriðnaðinum og því mikilvægt að finna not fyrir hana.

Fulltrúar Íslands í keppninni í ár voru þær Hildur Inga Sveinsdóttir og Málfríður Bjarnadóttir nemar í Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og Margrét A. Vilhjálmsdóttir nemi í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands. Þær framleiddu vöruna Ugly sem er eins konar grunnur sem hægt er að nýta í súpur, sósur o.fl. Varan er gerð úr grænmeti, aðallega tómötum og gulrótum, sem færi annars til spillis vegna t.d. stærðar eða annarra „útlitsgalla“. Þetta er grænmeti sem er mikið framleitt af hér á landi og því miður er einnig miklu magni sóað.

Hægt er að lesa sér betur til um vörurnar sem tóku þátt í keppninni á vefsíðu hennar: Ecotrophelia.org

Gerum okkur mat úr mörgu - Matarauður Íslands

08.11.2017 15:12

Af hverju fóru Íslendingar að nota mjólkursúr til að geyma matinn sinn? Hver eru matarsérkenni vesturlands? Var kræklingasúpa margreynt ráð við svefnleysi fyrr á öldum? Hver er sérstaða íslensks hráefnis? Hvar og hvenær eru matarviðburðir? Hvernig hefur sjálfbærni í matvælaframleiðslu áhrif á heilsu okkar? Hvað gera matarfrumkvöðlar?

 

Þetta og svo margt fleira sem tengist mat og matarmenningu okkar Íslendinga er að finna á nýrri vefsíðu Matarauðs Íslands. Tilgangur vefsíðunnar er að vekja athygli á fjölbreytileika og gæðum íslensks matar og þær ríkulegu hefðir sem við búum við. Verum þakklát fyrir gjöful mið og fjölbreytilegar landbúnaðarafurðir. Verum þakklát þeim Íslendingum sem brauðfæða okkur og leggja sig fram um að bjóða okkur upp á hreinar afurðir úr faðmi íslenskrar náttúru.Matur er stór hluti af ímynd þjóða og speglar náttúruna, söguna og tíðarandann. Matarferðaþjónusta er hratt vaxandi angi innan ferðaþjónustunnar. Hjá flestum okkur blundar þrá eftir því að tengja það sem við látum ofan í okkur við einhvern uppruna og merkingu. Að sitja á veitingahúsi í Öræfasveit með útsýni yfir stórfenglegan Vatnajökul og drekka bjór sem bruggaður er úr vatni jökulsins eða að snæða ylvolgt hverabakað rúgbrauð með taðreyktum silungi í Mývatnssveit er dæmi um það hvernig hægt er að tengja mat við landið og söguna.

Matarauður Íslands er verkefni sem heyrir undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Fylgstu með á Facebook, Instagram og Twitter: @mataraudur

Glænýtt myndband um matarauð okkar Íslendinga:

Í bestu gæðum (.mov)

Í ágætum gæðum (.mp4)

Frekari upplýsingar veitir Brynja Laxdal, verkefnastjóri Matarauðs Íslands í síma 8601969 eða á brynja.laxdal@anr.is 

 

Úr haga í maga

02.10.2017 16:44

Mjólkin kemur svo sannarlega víða við á leið sinni úr haga í maga! Mjólkin er dýrmæt afurð sem hefur farið í gegnum langt framleiðsluferli áður en hún endar hjá okkur neytendum.

Því er mjög mikilvægt að hugsa sig vel um áður en maður sóar fullkomlega góðum mjólkurafurðum. Til þess að meta gæðin er lang best að einfaldlega treysta á sín eigin skynfæri, Nota nefið, lykta og smakka. Það er nefnilega ekkert hættulegt, því "Best fyrir" dagssetningin á mjólkurvörum er ekki það sama og "síðasti neysludagur". Best fyrir er einungis sú dagssetning sem framleiðandinn treystir sér til þess að lofa fullum gæðum og eiginleikum vörunnar. Varan þarf samt alls ekki að vera vond eða ónýt þó hún sé komin fram yfir Best fyrir. Treystum nefinu okkar í þessu!

 

"Um framleiðsluna sjá rúmlega 26 þúsund mjólkurkýr sem búa á 600 kúabúum víðsvegar um landið. Þær skila af sér um 3 milljónum lítra af mjólk í hverri viku sem mjólkurbíllinn sækir og keyrir til afurðastöðva þar sem hún verður að yfir 300 tegundum mjólkurvara." Lesið meira og sjáið nýtt myndband á www.naut.is 

Horfa á myndband: ÚR HAGA Í MAGA

 


Minni matarsóun - minni losun!

28.08.2017 14:27

Síðastliðið vor undirrituðu sex ráðherrar í ríkisstjórn Íslands samstarfsyfirlýsingu um gerð aðgerðaráætlunar í loftslagsmálum. Markmið áætlunarinnar er að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt Parísarsamningnum í loftslagsmálum til 2030 með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu koldíoxíðs úr andrúmslofti. Sérstök verkefnisstjórn og sex faghópar vinna áætlunina auk þess sem settur hefur verið upp sérstakur samráðsvettvangur þar sem fulltrúum haghafa og stjórnarandstöðu verður boðið að taka sæti. Aðgerðaráætlunin skal liggja fyrir lok þessa árs.

Faghóparnir sex vinna nú að aðskildum þáttum aðgerðanna, þ.e. um samgöngur, orku og iðnað, sjávarútveg, landbúnað, ferðamennsku og minni sóun og úrgangsmál. Í faghópi um minni sóun og úrgangsmál sitja fulltrúar umhverfis- og auðlindaráðuneytis, Umhverfisstofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Miða tillögur hópsins að því dregið verði annars vegar úr urðun, enda á útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá úrgangi að mestu uppruna sinn að rekja til urðunarstaða, og hins vegar að aðgerðum sem hafa það að markmiði að draga úr myndun úrgangs.  

Í framangreindri vinnu er lögð mikil áhersla á að samfélagið allt taki fullan þátt til að tryggja langtímasýn og -árangur í minni auðlindasóun og uppbyggingu og þróun lágkolefnishagkerfis. Þetta kallar á samstillt átak stjórnvalda, atvinnulífs, félagasamtaka og almennings. Sérstakt vefsvæði tileinkað vinnunni hefur nú verið opnað á slóðinni www.co2.is. Almenningur er hvattur til að senda hugmyndir og tillögur að aðgerðum til verkefnisstjórnar á netfangið loftslag@uar.is. Til upplýsinga má nefna að Norðmenn stefna að því að helminga matarsóun í sinni loftslagsáætlun. Er tilvalið að senda verkefnisstjórn hugmyndir að aðgerðum til að minnka hvers konar sóun, ekki síst matarsóun.

Ætli þráðlausar ísskápsmyndavélar séu vænlegar til árangurs í baráttunni gegn matarsóun?

 

Fjölmenni sótti Óhóf – þörf á vitundarvakningu

18.08.2017 11:14

Óhóf, hóf til vitundarvakningar um matarsóun, fór fram á Petersen svítunni 10. ágúst sl. Atburðurinn var mjög vel sóttur, en Umhverfisstofnun var í hópi þeirra sem stóðu að viðburðinum ásamt Gamla bíó, matreiðslumeistaranum Hrefnu Sætran og samtökunum Vakandi með Rakel Garðarsdóttur í fararbroddi. Gert er ráð fyrir að tæplega 200 hafi komið saman í Óhófinu.

Atburðir þar sem boðið er upp á kræsingar úr illseljanlegum matvörum eru algengir í Evrópu. Þeir þykja skemmtileg leið til að vekja athygli á því óhófi sem við lifum í og til þess var leikurinn gerður.
Mikil umræða varð um matarsóun í kringum atburðinn. Gáfust mörg tækifæri til að fræða landann um aðgerðir til að sporna við matarsóun.

Við lifum á tímum óhófs þar sem þriðjungur matvæla sem framleidd eru er hent einhversstaðar í virðiskeðjunni. Þetta þarf að breytast. Skipuleggjendur Óhófs vildu sýna neytendum og fyrirtækjum að það eru til leiðir til að minnka matarsóun. Þar má til dæmis nefna að vinna úr matvælunum þegar þau liggja undir skemmdum, með að frysta, með að vera ekki hrædd við "best fyrir" merkingu á matvörum (Nota nefið!), með að taka afganga með sér heim, nýta afganga o.s.frv.

Hrefna Sætran útbjó gómsætar brúskettur úr snittubrauði og grænmeti sem ekki seljast í hillum verslana. Einnig var boðið upp á dýrindis „Blóðugar Maríur“ úr útlitsgölluðum tómötum með mysuvodka!

Mysuvodkinn kom frá Foss distillery, sem í samvinnu við Mjólkursamsöluna og KS eru að þróa mysuvodka úr mjólkursykri sem fellur til við ostaframleiðslu. Þessari afurð er annars hent í framleiðsluferlinu.

Gæðabakstur lagði til snittubrauð, en það brauð sem selst ekki ferskt í verslunum er annars tekið tilbaka og gefið í svínafóður. Sölufélag Garðyrkjubænda lagði til grænmeti og tómata í kokteilinn, það grænmeti hafði ekki komist í búðarhillurnar sökum útlitsgalla en er nýtt eftir fremsta megni í vörulínu félagsins „Í einum grænum“ sem býr til fullunnar vörur úr íslensku grænmeti.