Dagsetningar um geymsluþol matvæla segja ekki alltaf hve lengi þau eru neysluhæf. Hvort sem það stendur Best fyrir, Síðasti notkunardagur, Síðasti neysludagur, Framleiðsludagur, Pökkunardagur eða jafnvel eitthvað annað. Mikilvægt er að skilja þessar dagsetningar til að koma í veg fyrir óþarfa matarsóun.
Samkvæmt reglugerðum eiga flest pökkuð matvæli að vera merkt með dagsetningu geymsluþols. Hugtökin sem á að nota eru:
- „Best fyrir“ eða „best fyrir lok“
- „Síðasti notkunardagur“ eða „Notist eigi síðar en“
Best fyrir segir til um lágmarksgeymsluþol matvæla. Þessar merkingar gefa til kynna gæði frekar en öryggi matvæla þar sem þær sýna hvenær matvælin standast gæðakröfur framleiðanda. Matvörur sem eru merktar með lágmarksgeymsluþoli eru yfirleitt hæfar til neyslu eftir uppgefna dagsetningu, svo framarlega sem varan lyktar og smakkast eðlilega og umbúðir eru órofnar. Mikil matarsóun á rætur sínar að rekja til misskilnings á þessari merkingu. Því er gott ráð að treysta frekar á skynfærin til að nýta matvörur með þessa merkingu. Þó ber að virða leiðbeiningar um geymslu og neyslu eftir opnun umbúða, því langt geymsluþol byggist oft á vinnslu- og geymsluaðferðum (s.s. niðursuðu og loftskiptum) matvara sem síðan hafa stutt geymsluþol eftir opnun.
Síðasti notkunardagur er tilgreindur á matvælum sem eru viðkvæm fyrir örveruvexti og varan getur því orðið skaðleg heilsu ef hennar er neytt eftir síðasta notkunardag. Því ber að virða þessa dagsetningu og ekki einungis treysta á skynfærin þegar kemur að neyslu slíkra matvæla. Mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum um geymslu þessara matvæla til að fullvissa öryggi þeirra. Gott ráð er að frysta ónýttar vörur áður en síðasti notkunardagur er liðinn.
Framleiðslu- eða pökkunardagur eru upplýsingar fyrir verslunarstarfsmenn og ber að hunsa.
Önnur ráð
- Mjólk og jógúrt sem hafa verið vel kæld geymast oftast mun lengur en uppgefnar dagsetningar, því ber að treysta á skynfærin þegar svo á við.
- Ef mygla myndast á mjúkum osti, eins og brie, camembert og jafnvel sýrðum rjóma, ber ekki að neyta hans. En ef mygla myndast á hörðum osti þá er í lagi að skera einfaldlega mygluna og svæðið í kringum í burtu.
- Ávexti og grænmeti á síðasta snúningi er auðveldlega hægt að frysta og nýta síðar.
- Sniðugt er að frysta brauð áður en það myglar eða harðnar, en einnig eru ýmsar leiðir til að nýta harðnað brauð, t.d. í ýmsa ofnrétti.
- Ferskar kryddjurtir verða oft afgangs. Það er hins vegar einfalt að auka geymsluþol þeirra með því að annað hvort vefja þeim í vota eldhúsrúllu inni í ísskáp eða fyrsta þær.
Útlitsgallaðar afurðir
Um 20-40% ferskra afurða komast aldrei í verslanir sökum strangra útlitskrafna verslana. Hvort sem það er vegna vitlausrar stærðar, litar eða lögunar. Þetta leiðir til offramleiðslu bænda til að fullvissa að þeir rækti nægilegt magn af „fallegum“ afurðum. Verslanir setja ekki þessar kröfur að ástæðulausu, heldur er það vegna þess að neytendur einfaldlega kaupa ekki „ljótu“ afurðirnar. Bananar mega hvorki vera of eða vanbeygðir, epli ekki of stór eða lítil eða gulrætur of gular, þrátt fyrir að næringargildi útlitsgölluðu afurðanna sé hið sama. Því þarf að breyta viðhorfi neytenda til útlits grænmetis og ávaxta og hvetja verslanir til að selja þessar afurðir. Verslanir geta selt útlitsgallaðar afurðir á lægra verði, hvatt neytendur til að kaupa þessar afskræmdu afurðir og með tímanum sýnt neytendum að þessar afurðir eru alveg jafngóðar og þessar „fallegu“.
Heimajarðgerð:
Fólk heldur oft að matarsóun skipti ekki máli því matur er lífrænn og brotnar auðveldlega niður. Það er rétt í þeim skilningi að þegar við hendum epli í skógi þá brotnar það eðlilega niður og gefur að mestu frá sér CO2. Hins vegar er meirihluti þessa úrgangs á Íslandi urðaður sem krefst sífellt meira landsvæðir og leiðir til myndunar og losunar gróðurhúsalofttegunda. Þegar lífrænn úrgangur brotnar niður við loftfirrðar aðstæður, líkt og myndast við urðun, þá myndast metan gas. Metan er 21 sinnum virkari gróðurhúsalofttegund en koltvíoxíð og því töluvert verri.
Ein leið til að sporna við þessu er heimajarðgerð, þ.e.a.s. að umbreyta lífrænum úrgangi heimilis í moltu. Þessi molta nýtist svo sem jarðvegsbætir sem gerir jarðveginn frjótsamari og léttari. Leiðbeiningar Umhverfisstofnunar um heimajarðgerð finnast hér